11 | Framhaldsskólinn 2890 | Menntamálastofnun 2023 | Dómstóll götunnar/Mannorðsmorð/Tekinn af lífi/Of langt gengið … Kennarar þurfa að vera meðvitaðir um algenga frasa og klisjur sem þjóna nauðgunarmenningunni. Bæði til þess að forðast sjálfir þau orð og til þess að geta bent nemendum á hvernig slík orð geta verið heftandi fyrir umræðuna. Það er mjög mannlegt að skilgreina eigin reynslu og fólkið sem okkur þykir vænt um, fjarri erfiðum orðum á borð við nauðgun og nauðgari en færum okkur samt frá hugtökum sem afvegaleiða umræðuna. Orðræðan virðist oft ganga út frá því að þrátt fyrir að kynferðisofbeldi sé samfélagsmein sem skilji eftir sig slóð brotaþola, séu gerendurnir hvergi til. Kynferðisofbeldi er á alla kanta viðkvæmt mál en hægt er (og mikilvægt) að ræða það á annan hátt en að vinna gegn samfélagsbyltingum síðustu ára, þar sem brotaþolar taka sér loks pláss og skila skömminni. Saklaus uns sekt er sönnuð Þegar einhver hefur brotið af sér er hann sekur um brot, burtséð frá því hvort hann sé staðinn að verki eða ekki. Verknaður skilgreinir sekt en ekki dómsalur, hvað þá almenningur. Saklaus uns sekt er sönnuð er réttarfræðilegur frasi sem á eingöngu við um skyldur dómstóla gagnvart ákærða í kærumáli en er óviðeigandi annars staðar. Í þessu samhengi verður einnig að nefna að fæstir kynferðisbrotamenn eru nokkurn tímann dæmdir og raunar sjaldnast kærðir. Kynferðisbrot eru þess eðlis að vitni og sönnunargögn eru fá, ef nokkur, og því þau mál sem helst eru felld niður í kerfinu. Það að kærumál séu felld niður vegna ónógra sannana er ekki staðfesting á að brot hafi ekki átt sér stað, heldur aðeins á því að dómstóllinn hafi orðið að leyfa hinum ákærða að njóta vafans sem ónógar sannanir skapa. Kynferðisbrot eru einu sakamálin þar sem trúverðugleiki brotaþola er gegnumgangandi dreginn í efa, og tilfinningalegt uppnám jafnt notað til að styðja við frásögn og draga úr trúverðugleika á sama tíma. Samkvæmt niðurstöðum rannsóknarinnar „Áfallasaga kvenna“ frá árinu 2018 hefur ein af hverjum fjórum fullorðnum íslenskum konum orðið fyrir nauðgun eða nauðgunartilraun. Ljóst er að mjög lítill hluti gerenda þeirra brota hefur þurft að svara til saka fyrir ofbeldið. „Orð á móti orði“ Þessi frasi málar upp kynferðisbrot á einfaldan og svarthvítan hátt. Annað hvort hljóti um að ræða einbeittan brotavilja annars aðilans eða lygar hins. Í þessari handbók verður hinsvegar fjallað um hversu flókin slík mál eru oft. Gerendur kynferðisbrota eru alls konar og mjög oft tengdir þolendum nánum böndum. Samfélagslegar staðalímyndir, valdamisvægi, forréttindablinda og ólíkar hugmyndir fólks um kynlíf og samskipti eiga stóran þátt í kynbundnu ofbeldi; svo að upplifun tveggja af sama atburði getur verið gjörólík. Það fríar gerandur þó ekki ábyrgð. Þeir þurfa mun frekar stuðning við að horfast í augu við eigin gjörðir og læra af þeim, en að samfélagið allt setji sig í stellingar réttarkerfis og meti ofbeldið út frá sönnunarbyrði fremur en upplifun brotaþola. Kynbundið ofbeldið er langtum stærra vandamál en kærur og dómar segja til um.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=