Þú getur lesið söguna og líka hlustað
á hana um leið og þú lest.


Ýttu hér til að hlusta.

Ýttu hér til að byrja aftur.

Þegar þú ert búin(n) að lesa eða hlusta skaltu leysa verkefnin efst.

Raðaðu stöfunum í rétt orð.

Svaraðu spurningu.

Smelltu hér þegar þú ert búin(n).

Smelltu hér ef að þú vilt hjálp.

Græni gaukurinn
Einar og Tinna hitta afa
Í dag ætla Tinna og Einar
að heimsækja afa.
Þau koma við í bakaríi og kaupa snúða
til að færa honum.
Þeim finnst líka sjálfum snúðar góðir.

Afi býr á elliheimili því hann getur
ekki lengur séð um sig sjálfur.
Bakið er veikt og sjónin orðin slæm.
Afi er glaður að sjá Einar og Tinnu.
Hann réttir þeim blað.
- Viljið þið ekki lesa fyrir mig?
segir afi.
Afi hefur alltaf fylgst vel með

og hættir því ekki
þó hann sé orðinn gamall.
Tinna les bara góðar fréttir
Tinna opnar blaðið og les um blinda
stelpu sem vann verðlaun í sundi.
Hún les líka um krakka
sem héldu flóamarkað.

- Það höfum við Einar líka gert,
segir Tinna stolt.
Afi man það mjög vel.
- Er nokkuð í blaðinu um skák?
spyr hann spenntur.
- Ekki í dag, segir Tinna.
Tinna vill ekki lesa um slys, deilur
eða týnd gæludýr.
Hún verður of sorgmædd.
Afi biður því Einar að fletta
aðeins í gegnum blaðið.

Á meðan fer Tinna inn í eldhús
og setur snúðana á diska.
Þá heyrir hún allt í einu skrýtið hljóð.
Leynigestur á baðinu
- Anna, Anna mín! heyrist kallað.
Röddin er skræk.

Tinna opnar dyrnar að baðherberginu.
Á vaskinum situr stór, grænn
páfagaukur.

- Áttu páfagauk, afi? kallar Tinna.
- Já, segir afi, eða nei. Hann flaug
hingað inn í gær og skalf af kulda.

- Hvað borðar hann? spyr Einar
sem horfir hissa á fuglinn.
- Epli og brauð. Síðan fékk ég Lóu,
yfirmanninn á elliheimilinu,
til að kaupa gott fuglafræ, svarar afi.

- Má hafa páfagauk á elliheimilinu?
spyr Tinna.
- Nei, ég sagði Lóu að læknirinn hefði
sagt mér að dreifa fuglafræi
út á súrmjólkina mína.
Þá grunar hana ekki neitt,
svarar afi.
Afi sjóræningi
Fyrr eða síðar á einhver eftir að heyra
í páfagauknum. Svona stór fugl
þarf að fá að flögra um
og það er einmitt það sem hann gerir.

Fuglinn breiðir út græna vængina
og flýgur hring um stofuna
áður en hann sest á öxlina á afa.

Nú er afi eins og sjóræningi.
- Það á örugglega einhver páfagaukinn,
bendir Tinna á.

- Ég veit, segir afi leiður
og klappar fuglinum á hausinn.

Nú fær Einar hugmynd.
- Athugum hvort einhver auglýsir
eftir honum í blaðinu í dag!
Réttir eigendur finnast
Einar flettir í blaðinu
og allt í einu blasir við þeim mynd
af græna páfagauknum.
Undir myndinni stendur:

Mási er týndur.
Ef þið finnið hann skuluð þið endilega
koma með hann á Gauksmel 4.
Þórey og Anna.
- Afi, við verðum að skila páfagauknum,
segir Tinna ákveðin.
Afi kinkar kolli.

- Ætli það sé ekki rétt,
tautar hann og dæsir.

Afi á ekkert búr til að flytja páfagaukinn í.
Einar og Tinna verða því að fara
til Þóreyjar og Önnu og biðja þær
að sækja páfagaukinn til afa.
Gleði á Gauksmel
Þegar Einar hefur hringt dyrabjöllunni
á Gauksmel 4 heyrist kallað
innan úr íbúðinni:
- Anna mín, farðu til dyra.

Lítil stelpa opnar dyrnar
og horfir forvitin á systkinin.
Tinna flýtir sér að segja henni
að páfagaukurinn sé fundinn.
Hann sé heima hjá afa hennar.
Stelpan verður svo glöð
að hún hoppar upp og niður.

- Þórey! Mási er fundinn,
hrópar hún.

Stóra systir hennar kemur til dyra
og verður ekki síður kát.
Systurnar finna búrið hans Mása
og flýta sér í úlpurnar.
Öfundsjúkur páfagaukur
- Af hverju slapp Mási út?
spyr Tinna á leiðinni.
- Okkur var gefinn kettlingur.
Mási varð reiður yfir allri athyglinni
sem hann fékk.
Hann hjó í kettlinginn með gogginum
svo það blæddi úr honum, segir Þórey.
Við skömmuðum hann duglega
og næsta dag strauk hann
út um opinn glugga,
bætir Anna við.
- Við þurfum að gefa kettlinginn
fyrst Mási þolir hann ekki,
segir Þórey. Vonandi finnum við
gott heimili handa honum
Afi verður að kveðja Mása
Um leið og Mási sér Önnu
lætur hann sig svífa af öxlinni á afa
yfir á höfuðið á henni.

- Anna! Anna mín, tautar hann.

Anna og Þórey fá ekki bara
hann Mása sinn aftur,
heldur líka snúða.
Síðan setja þær fuglinn í búrið,
þakka fyrir sig og kveðja.

Þegar þær opna hurðina stendur
yfirmaðurinn Lóa frammi á gangi.

Hún horfir reið á Mása
sem er að snyrta fjaðrirnar sínar
í rólegheitum í búrinu.
Enga páfagauka hér
- Sá ég rétt? Eruð þið með
páfagauk hér inni í húsinu?
spyr Lóa.

- Þetta er nú bara saklaust dýr,
Lóa mín, svarar afi rólegur.

- Ég veit það en páfagaukar
eru bannaðir hér, segir Lóa.
- Segðu fuglinum það, svarar afi.
Það var hann sem ákvað
að fljúga inn til mín.
Nú er hann að fara
svo hann á ekki eftir
að búa hér mikið lengur.

Þá dettur Tinnu svolítið í hug.
Heimilislaus kisa
- Lóa, eru öll gæludýr bönnuð
hér á elliheimilinu? spyr Tinna.

- Nei, við höfum leyft nokkrum íbúum
að hafa kött, svarar Lóa.

Tinna snýr sér að afa sínum og segir:
- Ég veit um lítinn kött
sem þarf nýtt heimili.
<
Augabrúnirnar á afa lyftast
og hann réttir úr þreyttu bakinu.
- Lítinn kött segirðu.
Það væri gaman, segir hann.
Tinna lítur spyrjandi á Önnu
og Þóreyju sem kinka brosandi kolli.
Í sátt og samlyndi
Næst þegar Tinna og Einar koma til afa
situr hann með köttinn sér við hlið
og teflir við Lóu.

Tinna leggur eyrað að vömbinni á kisa
og hlustar á hann mala.
Honum líður greinilega vel.
- Hugsaðu þér, segir Tinna.
Fyrir fáeinum dögum var hér páfagaukur
en nú er allt í einu kominn köttur.
- Já, og afa líður miklu betur en áður.
Glaðastur allra hlýtur samt að vera kisi.
Nú er hann laus við að búa á sama
heimili og öfundsjúkur páfagaukur,
segir Einar

- Kannski hann Mási hafi verið blár
þegar hann skreið fyrst úr eggi
en hafi með tímanum orðið grænn
af tómri öfund, segir Tinna.
<
Námfús kisi
- Ef kötturinn horfir á okkur tefla
verður hann fljótur að læra
mannganginn, segir afi við Lóu.

- Ég vona samt að þú hættir ekki
að bjóða mér að tefla við þig,
segir Lóa og rýnir í skákina.

- Því lofa ég enda ferðu ekki jafnmikið
úr hárum og kötturinn, svarar afi.
Svo hlæja þau bæði svo taflmennirnir
hristast allir sem einn.
x Ekki búið að velja orð.
x
x Veldu eitt orð.