Orð eru ævintýri - Leiðbeiningar með mynda- og orðaspjöldum og stóru myndaspjöldunum

Orð eru ævintýri | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu | 40753 9 3 | HLUTVERKA- OG HREYFILEIKIR Hlutverka- og hreyfileikir eru upplagðir til að þjálfa hæfni sem tengist samskiptum, hlustun og leikrænni tjáningu. Í aðalnámskrá leikskóla (2022) segir m.a.: „Í leik mynda börn tengsl við aðra, skapa sér þekkingu, taka sér hlutverk, skapa ímyndaðar aðstæður og fylgja reglum leiksins sem þau setja sjálf.“ Einnig segir um leikskólabörn: „Mikilvægt er að þau fái að nota líkamstjáningu jafnhliða töluðu og rituðu máli í leik … Einnig er mikilvægt að þau læri að lesa í myndir og tákn og hafi frjálsan aðgang að efnivið til sköpunar í leik svo sem til að skrifa, teikna og hanna leikmuni.“ Á forstigi og fyrsta stigi í íslensku sem öðru tungumáli í aðalnámskrá grunnskóla má finna hæfniviðmið í hlustun sem snúast um að skilja einfalt daglegt mál og einfaldar leiðbeiningar með stuðningi mynda, hljóðs og látbragðs. Einnig að greina einstök orð, hljóð og tölustafi og að skilja grunnorðaforða. Hreyfi- og hlutverkaleikir samþætta leiklist og tungumálanám en í kafla um listgreinar í aðalnámskrá grunnskóla segir „Allir hafa hæfileika til að skapa … Í skapandi starfi fá nemendur tækifæri til að virkja og efla ímyndunarafl sitt, þjálfast í að taka ákvarðanir þar sem þeir vega og meta mismunandi valkosti og sjá afleiðingar af vali sínu. Nemendur þroskast í samvinnu við aðra, efla sjálfstæði sitt og sjálfsþekkingu og finna hæfileikum sínum farveg.“ Hér eru dæmi um hvernig vinna má með mynda- og orðaspjöldin í tengslum við hlutverka- og hreyfileiki: Að leika orð – Mynda- eða orðaspjöld Nemandi dregur spjald og leikur það sem er á myndinni eða orðið sem stendur á spjaldinu. Áhorfendur giska á hvaða orð er verið að leika. Nemendur rétta upp hönd ef þau telja sig vera með rétt svar. Sá sem giskar á rétt orð fær að gera næst. Athafnaspjöld, dýraspjöld og íþróttaspjöldin henta vel fyrir þennan leik. Með dýraspjöldum geta þau yngstu leikið dýrahljóðin. Ég hreyfi mig eins og ...? – Myndaspjöld Kennari dreifir myndum af dýrum á víð og dreif um gólfið og nefnir nafn á því dýri sem nemendur eiga að fara til. Þau eiga að komast þangað með því að hreyfa sig eins og dýrið gerir. Kennarinn nefnir slöngu og þá liðast þau eins og slöngur að myndinni. Kennarinn nefnir frosk og nemendur hoppa eins og froskar að myndinni. Kennarinn nefnir björn og nemendur þramma eins og björn að myndinni. Nemendur æfa sig í allskonar fleiri hreyfingum dýra eins og höfrungastökki, kengúruhoppi, krabbastöðu, froskahoppi, köngulóargangi o.s.frv. Önnur útfærsla æfir hljóðkerfisvitund: Kennari nefnir upphafsstaf dýrsins á þeirri mynd sem nemendur eiga að fara á t.d. „A“ og þá hreyfa nemendur sig eins og api og fara að myndinni af apa o.s.frv. Þessi útfærsla hentar börnum sem kunna stafina. Þriðja útfærsla æfir hlustun. Kennari dreifir myndum af dýrum um gólfið eða hengir á veggi. Spiluð eru tóndæmi af dýrahljóðum og nemendur hlusta og færa sig á milli eftir því hvaða hljóð þau heyra. Leikskóli Grunnskóli | Yngsta stig Grunnskóli | ÍSAT: Forstig 1. stig 2. stig Leikskóli Grunnskóli | Yngsta stig

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=