Orð eru ævintýri | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu | 40753 25 3 | MENNINGARLÆSI OG FJÖLTYNGI Tenging við aðalnámskrá grunnskóla: „Skólasamfélagið skal einkennast af samvinnu, jöfnuði og lýðræði þar sem öllum líður vel, fjölbreytt menning fær að blómstra, hvatt er til virkrar þátttöku og raddir allra fá að heyrast. Leggja skal áherslu á að fjölmenningarleg gildi endurspeglist í verkefnavali, námsgögnum, náms- og kennsluaðferðum og vinnubrögðum í öllu skólastarfi. Eitt af meginhlutverkum grunnskólans samkvæmt markmiðsgrein laga um grunnskóla er að stuðla að alhliða þroska nemenda og þátttöku í lýðræðisþjóðfélagi.“ (Aðalnámskrá grunnskóla 2021) „Tungumál eru auðlind og að viðhalda virku fjöltyngi er hagsmunamál fyrir fjöltyngd börn og samfélagið í heild.“ (Aðalnámskrá grunnskóla 2021) „Nemandi átti sig á hvað er líkt og hvað er ólíkt við tungumálin, þ.e. íslensku og eigið eða eigin tungumál og önnur tungumál sem nemandi þekkir. E.t.v. er skyldleiki milli þeirra sem mikilvægt er fyrir nemendur að nýta sér.“ (Hæfnirammar og hæfnisvið í íslensku sem öðru tungumáli 2022). Menningarnæmi Spjöldin má nota sem kveikju að umræðu um menningarleg atriði, t.d. myndir um hátíðir: 17. júní, bolludagur, þorrinn, jólin o.s.frv. Einnig menningarleg atriði tengd daglegu lífi. T.d. má ræða um morgunverkin á heimili barnanna á myndinni Góðan daginn. Er eitthvað sem tengist menningu fjölskyldunnar? Eins og t.d. að taka lýsi, lesa dagblöð o.s.frv. Þróa má umræðuna í átt að menningu barnanna sjálfra. Að virkja tungumál nemenda Nemendur skrifa orð á öðrum tungumálum sem þau þekkja á renninga og tengist myndunum á spjaldinu. Spjöldin eru sett á vegg og renningarnir á viðeigandi stað til hliðar við þau. Þetta væri t.d. hægt að gera með spjaldi nr. 40 um árstíðir og veður og safna orðum yfir árstíðir á öllum tungumálum sem hópurinn þekkir. Talin eru þau tungumál sem nemendur þekkja til að sýna fram á fjölbreytni þeirra og þann fjársjóð sem þeim fylgja. Ræða má skyldleika tungumála, tungumálafjölskyldur og fleira slíkt í þessu samhengi.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=