Orð eru ævintýri | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu | 40753 23 Fleiri spurningar til að virkja ímyndunarafl, dýpka hugsun og auka orðaforða gætu verið: • Hvað heldur þú að persónurnar heiti? • Hversu gamlar eru þær? • Er þetta fjölskylda og hvernig fjölskylda er þetta þá? • Er einhver boðskapur í myndinni? • Hvernig tilfinningu lýsir hún? Gleði, sorg, stressi? Einnig má tengja myndina við persónulega reynslu nemenda. Hægt er að kanna hvort þau þekki þær aðstæður sem eru á myndinni, hafi komið á álíka staði og ræða síðan reynslu þeirra af þessum aðstæðum og stöðum. Í framhaldi af umræðum semja nemendur eigin sögu um myndina. Þau sem ráða við að skrifa sögur gera það. Nemendur sem eru komnir lengst geta valið sér mynd og unnið sjálfstætt að því að skrifa sögu en einnig er hægt að vinna að sögugerð í pörum eða hópum. Ritunin getur líka verið í formi ljóðs, dagbókarfærslu eða fréttar. Hvetja ætti nemendur til að nýta lýsandi orð og finna leiðir til að vekja áhuga lesanda. Hér er gott að hafa í huga stigskiptan stuðning. Að bera saman myndir Kennari velur tvö (eða fleiri) spjöld (t.d. þar sem sömu persónurnar koma fyrir) og kemur af stað umræðum þar sem myndirnar eru bornar saman. Skoðað er hvað þær eiga sameiginlegt og hvað er ólíkt með þeim. Hópurinn getur velt fyrir sér hvor hafi átt sér stað á undan í tíma og rökstyður þær hugmyndir sem koma fram. Þjálfar rökhugsun, skapandi hugsun og tjáningu sem tengist slíkri hugsun. Í framhaldi geta nemendur samið leikrit eða sögu út frá umræðunni, einstaklingslega eða í hópum. Lausnaleit Kennari bendir á eða semur klípusögu tengda ákveðnu spjaldi og fær nemendur til að ræða saman og finna lausn á klípunni. Þetta gæti tengst Kúra sem er e.t.v. búinn að koma sér í vandræði eða einhverjum ímynduðum aðstæðum tengdum persónum, t.d. að þær hafi verið að rífast eða gert eitthvað af sér sem gæti haft afleiðingar. Þetta reynir á hlustun, skapandi hugsun, lausnamiðun og samvinnu. Myndlist Spjöldin geta verið kveikja að ýmsum skapandi verkefnum öðrum en ritunarverkefnum, t.d. í myndlist. Það er hægt að teikna út frá einstökum atriðum myndarinnar, ímynda sér framhaldið á því sem gerist á myndinni og teikna það, gera jafnvel eigin myndasögu. Nota má fjölbreyttar aðferðir við gerð listaverkanna, t.d. klippimyndir eða stafræn myndagerð. Leiklist – myndbandagerð Nemendur setja saman stutt leikrit eða fara í hlutverkaleik byggðan á ákveðinni mynd/spjaldi. Skemmtilegt er að hafa leikmuni við höndina. Nemendur geta unnið skriflegt handrit fyrst, skipt með sér hlutverkum og samið samtöl, allt eftir hæfnistigi. Einnig getur verið skemmtilegt að taka upp myndband og sýna hópnum og/eða foreldrum.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=