Orð eru ævintýri | © Miðstöð menntunar og skólaþjónustu | 40753 17 7 | MÁLFRÆÐILEIKIR Málfræði er hægt að þjálfa á ýmsan máta og mjög heppilegt að nýta orða- og myndaspjöld til þess. Í raun þjálfa margar aðferðirnar sem hér hefur verið lýst á undan málfræði. Það þarf alltaf grunnkunnáttu í henni til að setja saman setningar þótt kunnátta á hugtökum málfræðinnar sé ekki fyrir hendi. Á 1. stigi í íslensku sem öðru tungumáli, í aðalnámskrá grunnskóla, eru viðmið um að nemendur hafi öðlast grunnþekkingu í íslenskri málfræði og hún er tengd ritunarfærni. Það er þó líka hægt að þjálfa þessi atriði munnlega og ekki úr vegi að prófa þessar æfingar bæði með leikskólabörnum og nemendum á forstigi í íslensku sem öðru tungumáli. Bent skal á að best er að leiðrétta nemendur með því að endurtaka setningar „rétt“ en ekki dvelja of lengi við rangar beygingar. Ofuráhersla á leiðréttingar getur valdið því að nemendur forðist að tjá sig en frjáls tjáning þar sem ekki er einblínt á að tala „rétt mál“ er nauðsynleg í tungumálanámi. Hér eru dæmi um hvernig vinna má með mynda- og orðaspjöldin í tengslum við málfræði: Lýsingarorð eftir kynjum – Mynda- eða orðaspjöld (litir og föt) Nemendur draga saman litaspjöld og fataspjöld og segja lýsingarorðin í réttu kyni miðað við orðið sem var dregið. Dæmi: dregin eru orðin/myndirnar „rauður“ annars vegar og „pils“ hins vegar. Nemandi setur orðin saman og segir „rautt pils.“ Hægt að útfæra sem munnlega eða skriflega æfingu. Orð flokkuð eftir kynjum – Mynda- eða orðaspjöld Tilvalið verkefni þegar verið er að vinna með kyn nafnorða. Útbúið þrjá ramma eða hringi á stórt blað eða veggspjald. Nemendur hjálpast að við að flokka nafnorðaspjöld (myndir/orð/bæði) eftir kynjum (karlkyn, kvenkyn eða hvorugkyn) og setja þau á rammana eða í hringina. Síðan eru orðin skrifuð í mismunandi litum eftir kynjum inn í rammana. Leyfið nemendum að myndskreyta veggspjöldin og hengja upp í stofunni. Orð flokkuð eftir orðflokkum – Mynda- eða orðaspjöld Blandið saman athafnaspjöldum og orðum yfir hluti (nafnorð) í einn bunka. Nemendur vinna saman að því að flokka orðin í nafnorð og sagnorð. Þau rökstyðja flokkunina með stuðningi frá kennaranum. Nemendur reyna að búa til setningar með orðunum. Hægt að útfæra munnlega eða skriflega. Orð sett í fleirtölu – Mynda- eða orðaspjöld Töluspjald er dregið ásamt orða- eða myndaspjaldi af hlut (nafnorði). Nemandi segir töluna og nafnorðið í réttu kyni og tölu (ef um er að ræða tölu milli 1-4 þarf töluorðið að vera í sama kyni og nafnorðið). Einnig er hægt að nota tening, jafnvel fleiri en einn ef óskað er eftir að æfa háar tölur. Til að þyngja verkefnið væri hægt að bæta litaspjöldunum við. Hægt er að vinna þetta verkefni í pörum og útfæra það skriflega eða munnlega. Leikskóli Grunnskóli | Yngsta stig Grunnskóli | ÍSAT: Forstig 1. stig 2. stig Grunnskóli | Yngsta stig Grunnskóli | ÍSAT: Forstig 1. stig 2. stig Grunnskóli | Yngsta stig Grunnskóli | ÍSAT: Forstig 1. stig 2. stig Grunnskóli | Yngsta stig Grunnskóli | ÍSAT: Forstig 1. stig 2. stig
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=