Bókmenntir og lestur
Málvísi
Stafsetning
Ritun
Framsögn
Þemaverkefni
Námsmat
Um kennsluefni
Krækjusafn
Um vefinn

Til baka

 

Prenta síðuna

Kennsluhugmyndir um ritun

Að segja sögu
Sá sem er góður í að segja sögur er líklegur til að vera góður í að skrifa sögur. Hægt er að nota ýmsar leiðir til að þjálfa nemendur á þessu sviði. T.d. mætti skipuleggja ákveðinn sögutíma þar sem nemendur skiptust á að segja sögur. Sögurnar geta verið frumsamdar, sögur sem aðrir hafa sagt þeim eða frásagnir af raunverulegum atburðum. Sögunum má safna saman á segulband, myndband eða bara njóta þess að hlusta á þær án þess að vinna neitt frekar með þær. Víða má nálgast leiðbeiningar um það hvernig á að segja sögu og á leikjavefnum.

Að hlusta á sögu
Á sama hátt og það er gott að æfa sig í að segja sögur en gott að hlusta á sögur. Nemendur og kennari geta skipst á að velja sögur til að segja, hægt er að hlusta á sögur lesnar upp í útvarpi, á geisladiskum eða skipuleggja heimsókn þar sem utanaðkomandi er fenginn til að koma í skólann til að segja sögu.

Útdráttur
Ritun útdrátta er góð leið til að þjálfa ritun auk þess sem nemendur þjálfast í lestri, lesskilningi og stafsetningu. Nemendur fá góða þjálfun í að greina aðalatriði frá aukaatriðum. Ágæt leið til að þjálfa nemendur í að skrifa útdrætti er að fá þá til að segja í stuttu máli frá innihaldi kvikmyndar, sjónvarpsefnis, blaðagreinar eða skáldsögu. Leiðbeiningar við hefðbundna ritun útdrátta má nálgast hér.

Dagbókarskrif
Dagbókarskrif eru frábær leið til að þjálfa ritun. Hægt er að skipuleggja þau ýmist þannig að nemendur skrifi í dagbókina nokkrar vikur í senn eða allt skólaárið. Dagbókarskrifin geta jafnvel orðið fastur þáttur í skólastarfinu. Í gagnabankanum á Miðbjörgu er að finna umfjöllun um dagbókarskrif. Þar má einnig nálgast verkefni um dagbókarskrif. Auk þess sem nemendur geta skrifað hefðbundna dagbók mætti hugsa sér sérstaka draumadagbók, veðurdagbók, matardagbók eða lestrardagbók.

Ritdómur
Nemendur kynna sér ritdóma um bókina sem þeir eru að lesa. Þeir skrifa síðan sinn eigin ritdóm samkvæmt fyrirmælum frá kennara. Gott getur verið að sýna nemendum dæmi um ritdóma sem birst hafa í blöðum en þá má t.d. nálgast á Netinu.

Fréttir
Nemendur velja atburði úr sögunni sem þeir eru að lesa og skrifa um þá í fréttastíl. Ágætt er að ræða í leiðinni um mismunandi stílbrögð og hvað einkennir t.d. fréttastílinn. Hægt er að biðja nemendur um að skrifa í mismundandi stíl t.d. æsifréttastíl eða hlutlausum stíl.

Hugleiðing
Nemendur skrifa hugleiðingu um efni sem tengist bókinni sem þeir eru að lesa. Hægt er að setja fyrir ákveðinn fjölda hugleiðinga, t.d. tvær á viku. Lengd hverrar hugleiðingar getur t.d. verið 100 – 200 orð. Hugleiðingunum geta nemendur safnað saman í möppu sem notuð er við alhliða námsmat. Dæmi um verkefni má nálgast hér.

Viðtöl
Nemendur taka viðtöl við einhverjar persónur bókarinnar og æfa sig í að skrifa grein í svipuðum stíl og birtast í tímaritum. Áður hafa þeir skoðað slíkar greinar til að átta sig á því hver helstu einkenni þeirra eru t.d. með því að skoða viðtöl í dagblöðum eða tímaritum.

Sendibréf
Nemendur skrifa höfundi bréf og spyrja hann út í efni bókarinnar. Þeir geta velt fyrir sér einstökum atriðum hennar, beðið höfundinn að útskýra einhver atriði eða komið með tillögur um eitthvað sem höfundur getur hugleitt fyrir næstu bókaskrif. Nemendur eru í leiðinni minntir á að huga að formi bréfsins, uppsetningu, stíl og frágangi. Ef vel tekst til mætti senda viðkomandi höfundi bréfið eða birta það á heimasíðu bekkjarins.

Bókavefur
Efni nemenda er vistað á vef sem búinn er til sérstaklega í þeim tilgangi að birta fjölbreytt skrif nemenda um eina bók eða fleiri.

Hvernig skrifa aðrir
Ein leið til að auka færni í ritun er að skoða hvernig aðrir skrifa. Hægt er að gera það markvisst, t.d. ljósrita á glæru síður úr bókum sem nemendur eru að lesa eða greinar úr dagblöðum og skoða markvisst textann. Atriði sem skoða má eru í raun óteljandi. Það er hægt að skoða hvernig frásögnin er, t.d. hvort hún er hröð eða hæg. Hægt er að skoða orðaval t.d. hvort höfundur velur orð sem gefa textanum mjúkan eða harðan blæ, hvort textinn virki gamall eða nýlegur, formlegur, hátíðlegur eða hversdagslegur. Þá má athuga hvort mikið sé um sérnöfn; staðarnöfn og mannanöfn, hvort nafnorðin séu með ákveðnum greini, hvort mikið sé um lýsingarorð eða aðra orðflokka.

Að skipta um kyn
Kennari velur texta til að vinna með, t.d. brot úr skáldsögu, smásögu, þjóðsögu, grein í blaði eða tímariti. Hafa þarf í huga að í textanum komi fram mismunandi hlutverk kynjanna. Nemendur eru beðnir að endurrita textann með það í huga að breyta um hlutverk kynjanna. Kvenpersóna er sett í hlutverk karlpersónu – og öfugt. Skemmtileg leið til að varpa ljósi á hugmyndir okkar og nemendanna um hvað telst kvenlegt og hvað karlmannlegt.

Efni á Netinu
Á Netinu er að finna efni um ritun. Hér er bent á hluta þess:

Aš lesa og skrifa

http://www.ismennt.is/not/hsteinn/index.htm

Handbók fyrir móðurmálskennara. Höfundur Hafsteinn Karlsson.

Að skrifa rétt http://www.nams.is/ad_skrifa/index.htm#

Námsvefur vistaður á vef Námsgagnastofnunar. Ætlaður til að þjálfa nemendur í að lesa og stafsetja texta með samhljóðasamböndum.

Ljóðagerð
http://www.nams.is/i-dagsins-onn/ymsir-merkisdagar/nr/114

Ábendingar til kennara um hvernig megi vinna með ljóð og hvernig hvetja megi nemendur til ljóðagerðar. Efni vistað á heimasíðu Námsgagnastofnunar.