![]() Staðsetning landsins hefur haft mikil áhrif á sögu og menningu þjóðarinnar. Tyrkland er oft kallað „vagga siðmenningar“ og hefur verið heimkynni ýmissa ættkvísla og þjóðflokka allt frá því 6500 f.Kr. Eftir fall Konstantínópel 1453 varð Tyrkland hjarta hins fræga Ottóman-heimsveldis (stundum kallað Tyrkjaveldi) sem náði smám saman yfir stóran hluta Miðausturlanda, N-Afríku og Austur-Evrópu. Frá því að lýðveldi var stofnað upp úr fyrri heimsstyrjöld, þegar veldi Ottómana liðaðist í sundur, hefur Tyrkland gegnt stóru hlutverki í alþjóðastjórnmálum og í gegnum landið liggur ein af mikilvægustu siglingaleiðum til Evrópu sem tengir Svartahaf við Miðjarðarhaf. Lýðveldið Tyrkland var stofnað árið 1923 eftir uppreisn sem stjórnað var af Mustafa Kemal Atatürk sem varð fyrsti forseti landsins. Árið 1945 fékk Tyrkland inngöngu í Sameinuðu þjóðirnar og 1952 gerðist landið aðili að NATO eða Atlantshafsbandalaginu. Á undanförnum árum hefur Tyrkland orðið sífellt vinsælli áfangastaður ferðamanna í Evrópu. |