Landafræði tónlistarinnar
Á þessari vefsíðu er að finna ýmsar upplýsingar um Indland og indverska tónlist. Námsefnið sem hér er sett fram heitir Landafræði tónlistarinnar og er hugsað fyrir grunnskólanemendur. Markmiðið er að kynna fyrir íslenskum nemendum tónlist sem er þeim framandi og ólík þeirri tónlist sem þeir eru vanir.

Inngangur  
Framandi menning, musteri, trúarbrögð, hátækniiðnaður, Bollywood-dansar og seiðandi tónlist, allt á þetta við Indland. Indland er þekkt fyrir staði eins og Taj Mahal-höllina og Ganges-fljótið, fólk eins og Mahatma Gandhi og móður Teresu sem þar hefur starfað við líknarstörf. Vissir þú til dæmis að skákin kemur frá Indlandi og að það er annað fjölmennasta ríki heims?

Indland býr yfir auðugri og fjölbreyttri menningararfleifð og er eitt af elstu siðmenningarríkjum heims. Það er einnig sjöunda stærsta land í heimi og nær yfir 3.288.000 km² svæði, frá snævi þöktum hæðum Himalajafjalla til hitabeltisregnskóganna í suðri. Indland er sambandsríki sem samanstendur af 28 fylkjum og 7 alríkishéruðum.

Indland státar af langri sögu sem nær allt að 10.000 ár aftur í tímann. Indversk tónlist er afar forn og má rekja allt til tíma Veda-ritanna sem eru elstu helgirit hindúa. Í indverskri tónlist eru notuð fjölmörg framandi hljóðfæri sem áhugavert er að kynnast og þeirra þekktust eru sítarinn og tabla trommurnar. En á þessari vefsíðu kynnumst við indverskri tónlist og þeirri menningu sem hún er sprottin upp úr.