Um
Indland Indland er næstfjölmennasta land í heimi, á eftir Kína en íbúar landsins eru 1.173.108.000 (2010). Indland er í Suður-Asíu, það er sjöunda stærsta land í heimi og liggur á Indlandsskaga. Að landinu liggja Pakistan, Kína, Nepal, Bútan, Mjanmar (Burma) og Bangladess.
Í norðri eru Himalajafjöllin en meðal þeirra er Everest, hæsta fjall í heimi, svo og nokkur önnur fjöll sem eru einnig á meðal hæstu fjalla heims.
Í norðurhluta Indlands er einnig að finna hin miklu fljót, Indus, Ganges og Brahmaputra. Ganges er mikilvægasta fljót Indlands en það á upptök sín í Himalæjafjöllunum og fellur í Bengalflóa. Fljótið er heilagt fyrir þá Indverja sem aðhyllast hindúasið. Nafn Indlands má rekja til nafns árinnar Indus.
Monsúnvindar stjórna loftslaginu á Indlandi og má segja að í stærstum hluta landsins séu þrjár árstíðir, heitt og þurrt (mars - maí), heitt og blautt (júní - september) og svalt og þurrt (október - febrúar).
Á Indlandi eru villt dýr eins og tígrisdýr, ljón, hlébarðar, fílar, nashyrningar, birnir og dádýr. Apar og kýr eru algeng dýr enda telja þeir sem aðhyllast hindúasið þetta heilög dýr og má því sjá þau í borgum landsins. Páfuglinn er þjóðarfugl Indlands.
Opinber tungumál Indlands eru hindí og enska en einnig eru töluð þar mörg önnur tungumál. Þegar Indverjar, sem tala ólík tungumál, eiga samskipti sín á milli er enskan oft notuð. Áætlað er að á Indlandi sé að finna 30 aðskilin tungumál og 2000 mállýskur.
Um 80% Indverja aðhyllast hindúasið. Næst fjölmennastir eru múslimar en þeir eru um 12% íbúa landsins. Þar fyrir utan eru milljónir sem aðhyllast kristna trú, margir eru síkar, búddistar eða aðhyllast önnur trúarbrögð.
Meirihluti Indverja býr í þorpum en indverskar borgir eru yfirleitt þéttbýlar og fjölmennar. Höfuðborg Indlands er Nýja-Delí en stærstu borgirnar á Indlandi eru Mumbai (Bombay), Delí og Kalkútta.
Menning Indlands er ein sú elsta í heimi. Indverjar eru þekktir fyrir sína framandi tónlist og dansa og þá skipa trúarbrögð og heimspeki stóran sess í lífi þeirra sem og í indverskum bókmenntum. Indland er sennilega best þekkt fyrir meistaraverk í byggingarlist sem þar er að finna frá mismunandi tímaskeiðum. Oft er talað um Taj Mahal, í borginni Agra, sem fallegustu byggingu í heimi.
Indverjar öðluðust sjálfstæði frá Bretum 1947 og síðan hafa orðið miklar efnahagslegar framfarir í landinu með utanaðkomandi hjálp og góðu skipulagi.