Á myndinni á blaðsíðu 13 eru myndir af nokkrum ólíkum steinum. Efstu steinarnir tveir eru basalt en um 90% af Íslandi er úr því efni. Basalt kemur frá hinum fjölmörgu gossprungum landsins þar sem land gliðnar og kvika úr iðrum jarðar leitar upp. (Sjá kennsluleiðbeiningar með Komdu og skoðaðu land og þjóð.)

Grái steinninn efst til hægri er moli úr basalthrauni sem hefur runnið úr einhverri gossprungunni.

Steinninn efst til vinstri er móberg en móberg myndast þegar eldgos verður undir jökli, sjó eða vatni. Vatnið snöggkælir kvikuna svo að hún nær ekki að renna sem hraun heldur splundrast, oft með miklum sprengingum, og breytist í steinmylsnu sem er kölluð gjóska. Gjóskan hleðst upp og límist saman í móberg. Í móberginu á myndinni má sjá samanlímd bergbrot og gjósku.

Röndótti steinninn í miðju til vinstri og svarti steinninn í miðjunni neðarlega, hrafntinnan, eru molar úr ljósgrýtishrauni en jarðfræðingar kalla það venjulega rhýólít eða líparít. Rhýólít verður til í megineldstöðvum svo að þessir molar eru úr hrauni sem hefur runnið frá megineldstöð. Þegar rhýólít snöggkólnar, eins og gerist t.d. á jöðrum hrauna, þá breytist það í gler og verður kolsvart og þá köllum við það hrafntinnu.

Þessir fjórir steinar eru því allir brot úr bergi, kviku sem hefur brotist upp á yfirborð jarðar og storknað þar á einhvern hátt. Í bergi er venjulega blanda af margs konar kristöllum eða steindum. Hinir steinarnir á myndinni eru hins vegar steindir, hver með sína sérstöku kristallagerð og hafa orðið til á allt annan hátt. Hraun hlaðast upp, ný hraun renna yfir þau sem fyrir eru og smátt og smátt myndast miklir og firnaþungir jarðlagastaflar. Í jarðlögunum geta verið alls kyns holur og sprungur sem vatn rennur um og á Íslandi er það vatn oft heitt. Í þessu vatni, djúpt niðri í jörðinni þar sem er mikill þrýstingur, geta fallið út kristallar og myndað margs konar steindir (sjá verkefnið Kristallar í Á vettvangi). Hvaða steindir myndast er háð því hvaða efni eru í vatninu. Svo þegar jarðlagastaflarnir rofna af einhverjum ástæðum, jöklar eða ár grafa sig niður í þá eða hafið brýtur úr þeim með öldugangi, þá koma steindirnar í ljós, oft margbreytilegar að lit og lögun. Hinar þrjár gerðir steinda á blaðsíðu 13 eru allar myndaðar á þennan hátt, þ.e. þær hafa fallið út í heitu vatni undir miklum þrýstingi djúpt í jörðu.

Steinarnir sjö, neðst í horninu til vinstri eru glerhallar eða kalsedón. Þeir eru reyndar líka kallaðir draugasteinar því að þeir geta gneistað sé þeim slegið saman. Þetta eru harðir steinar og brotna ekki auðveldlega niður en þessir steinar á myndinni eru greinilega lábarðir, orðnir ávalir í lögun eftir að sjór eða vatn hefur velt þeim fram og aftur og barið þá hverjum við annan í áraraðir eftir að þeir komu upp á yfirborð jarðar.

Steinninn lengst til hægri neðst er silfurberg. Silfurberg er merkilegt fyrir margra hluta sakir. Í því eru stórir og fallegir kristallar og brúnir þeirra mynda skarpar og þráðbeinar línur. Í silfurbergi er sérstakt ljósbrot og það var notað í smásjár á allt frá 17 öld framn undir 1920. Á þeim tíma var mikið af íslensku silfurbergi flutt til útlanda og átti þar góðan þátt í alls kyns uppgötvunum í eðlisfræði og öðrum vísindum. Silfurberg er tiltölulega algengt en hins vegar er sjaldgæft að kristallar þess séu jafn tærir og stórir og þeir eru í íslensku silfurbergi. Stærsti silfurbergskristall sem vitað er um í heiminum er um 225 kg. Hann kom frá Íslandi og er á safni í Lundúnum

Steinninn í miðjunni hægra megin er jaspis. Jaspis er sambærileg steind og kalsedón en grófari í sér og litinn fær jaspisinn úr ýmiss konar aðkomuefnum t.d. rauða litinn úr járni.

Kristján Jónasson, Náttúrufræðistofnun Íslands, munnlegar upplýsingar.
Kristján Sæmundsson, Einar Gunnlaugsson. 1999. Íslenska steinabókin. Mál og menning, Reykjavík.

Loka glugga