Ánamaðkur

Ánamaðkar kallast flokkur dýra sem tilheyrir fylkingunni liðormar og er nafnið lýsandi því að líkami ormanna skiptist í marga liði. Ánamaðkar eru mikilvæg jarðvegsdýr. Þeir éta sig í gegnum jarðveginn og losa þannig um hann svo að loft og vatn kemst betur um hann sem og dýr og rætur plantna. Ánamaðkarnir eiga stóran þátt í að blanda saman þeim efnum sem mynda jarðveginn t.d. þegar þeir éta rotnandi laufblöð á yfirborði og flytja þau niður í moldina. (Sjá verkefni á bls. 49 í Náttúran allan ársins hring og Ánamaðkar auðga jörð á bls. 59 í Náttúruverkefnunum.)

Járnsmiður

Járnsmiðir eru bjöllur en þær eru ættbálkur í flokki skordýra sem aftur eru af fylkingu liðdýra. Skordýr eru ákaflega fjölbreyttur flokkur dýra. Líkami þeirra er þrískiptur í höfuð, frambol og afturbol. Á milli þessara líkamshluta eru skorur sem flokkurinn ber nafn af. Skordýr hafa sex fætur og oftast tvö pör af vængjum og allt er þetta á frambol. Skordýr verpa eggjum og ungviðið fer í gegnum lirfu- og púpustig áður en fullorðinsútliti er náð. Á sumum skordýrum hefur annað vængparið ummyndast eða alveg horfið. Á bjöllum hefur fremra vængparið ummyndast í harða skjaldvængi sem falla að búknum en afturvængirnir eru þunnir og liggja samanbrotnir undir skjaldvængjunum.

Járnsmiðir eru algengir um allt land. Gömul trú er að það sé óheillamerki að drepa járnsmið. Þeir eiga það til að álpast inn í hús og þá er um að gera að beita lagni við að koma þeim út þar sem þeir eiga heima.

Hunangsfluga

Á Íslandi eru þrjár tegundir villtra hunangsflugna. Þær eru skordýr af ættbálki æðvængja. Allar sækja þessar flugur í blómin til að ná sér þar í hunang og frjókorn og eru þá um leið afkastamiklar við að bera frjó af karlblómunum yfir á frævu kvenblómanna svo að frjóvgun geti orðið og fræ myndast. Hunangsflugurnar lifa í félagsbúi. Á vorin vaknar hunangsflugudrottningin úr vetrardvala og finnur sér stað fyrir búið sitt. Þar verpir hún eggjum og úr þeim eggjum koma eingöngu þernur sem safna hunangi og frjókornum í búið. Þegar líður að hausti klekjast út karldýr og verðandi drottningar. Allar flugurnar deyja svo um haustið nema nýju drottningarnar sem leggjast í dvala til næsta vors. Í útlöndum eru ræktaðar hunangsflugur sem safna miklu hunangi í búin sín sem fólk síðan tekur og nýtir. Margir eru hræddir við hunangsflugur og halda að þær stingi. Það gera þær ekki nema þær séu verulega áreittar.

Haustfeti

Haustfeti er skordýr af ættbálki fiðrilda. Fiðrildi eru með fjóra vængi og alsett hreistri sem stundum myndar á þeim skrautlegt mynstur. Íslensk fiðrildi eru yfirleitt frekar litlítil. Fullorðin fiðrildi hafa langan rana sem þau nota til að sjúga með safa úr blómum en lirfurnar naga gjarnan laufblöð og annan gróður.

Langfætla

Margir halda að langfætlur séu köngulær en það eru þær ekki. Bæði langfætlur og köngulær eru liðdýr og í flokki áttfætla en þar skiljast leiðir og þessir hópar mynda hvor sinn ættbálkinn. Auðsætt einkenni sem skilur að köngulær og langfætlur er að búkur köngulóa skiptist í tvennt en langfætlur eru mittislausar. Búkurinn er heill, næstum hnöttóttur og hangir á löngum löppum. Langfætlurnar hlaupa um en spinna ekki þráð og vefa eins og köngulærnar. Augu langfætla eru tvö framarlega á búknum. Fremst hefur langfætlan svo sterkar klær sem hún notar til að rífa í sundur fæðuna og stinga henni í munninn en hún étur bæði dýr og hræ. Langfætlurnar verpa eggjum sínum í jörð á haustin. Snemma næsta vor fara svo litlar langfætlur á stjá og vaxa og dafna og ná fullri stærð um sumarið.

Könguló

Köngulær eru af flokki áttfætla eins og langfætlur. Búkur köngulónna er tvískiptur en hvorki þrískiptur eins og hjá skordýrum né ein heild eins og hjá langfætlum.

Áttfætlur heita á fræðimáli Arachnida. Í Grikklandi bjó einu sinni konungsdóttirin Arachnida og var afburðagóður vefari. Gyðjan Aþena gat ekki ofið af slíkri list. Af afbrýðisemi út í Arachne breytti Aþena henni í könguló. Þótt allur flokkur áttfætla beri þar með nafn listavefarans Arachne þá eru það þó fyrst og fremst einstaklingar í ættbálki köngulóa sem feta í fótspor Arachne prinsessu.

Spuninn og vefnaðurinn eru mikilvægir þættir í atferli köngulónna. Sumar spinna þétta, oft slímuga vefi sem flugur fljúga í og festast og verða þar með auðveld bráð fyrir köngulærnar. Aðrar köngulær spinna þræði til að hanga á, eða sveifla sér á, ef þær vilja stytta sér leið, eða þær nota vefinn sem n.k. svifflugu í golunni og geta borist langa vegu á þann hátt. Trúlega hafa flestar íslenskar köngulær borist til landsins svífandi á slíkri silkisvifflugu. Í bókinni Pöddur sem Landvernd gaf út er skemmtilegur kafli um köngulær.

Ítarefni og heimildir

Hrefna Sigurjónsdóttir og Árni Einarsson, ritstjórar, 1989. Pöddur. Landvernd, Reykjavík.

Loka glugga