Túnfífill (Taraxacum spp.)

Túnfífill telst til margra tegunda sem erfitt er að greina á milli. Hann er af körfublómaætt. Túnfífillinn er algengur um allt land a.m.k. á láglendi. Hann er einn af vorboðunum og opnar sín skærgulu blóm snemma vors á skjólgóðum stöðum. Hver blómhnappur er í raun ekki eitt blóm heldur mörg blóm og hvert þeirra er sem löng, gul tunga. Öll þessi litlu blóm mynda saman blómhnappinn sem er kallaður karfa. Þegar blómgun er í hámarki, um og eftir miðjan júní, mynda fíflar miklar gular breiður í næringarríkum jarðvegi. Svo loka körfurnar sér en opnast fljótlega aftur sem biðukollur. Þetta eru fræ fífilsins, hvert þeirra vel útbúið til langferðar með lítilli „fallhlíf“. Gaman er að blása á biðukollurnar og hjálpa fíflunum að dreifa sér. Mörgum garðeigendum er illa við fífla því að þeir eru duglegir að koma sér fyrir en ef erfitt væri að rækta þessi fallegu blóm myndi fólk líklega keppast við að skreyta garða sína með þeim!

Túnfífillinn hefur líka verið kallaður ætifífill enda verið notaður bæði í mat og lyf. Ný fíflablöð eru góð í salat, ræturnar hafa verið malaðar í kaffibæti og blómin verið borðuð steikt úr smjöri eða búið til úr þeim vín. Bæði blöðin og stór stólparótin voru notuð til lækninga á alls kyns meinum og gott á að vera að hreinsa húðina með fíflamjólk.

Blágresi (Geranium sylvaticum)

Blágresi er af blágresisætt. Blágresi er algengt um allt land sérstaklega í kjarrlendi þar sem land er friðað og þar verður það stórvaxnast. Blágresið er mikil uppáhaldsjurt hjá mörgum enda með stór, falleg, fjólublá blóm sem eru í fullum blóma um svipað leyti og dagur er lengstur og nóttleysi ríkir á landinu. Aldinið myndar sérkennilega, langa trjónu sem líkist helst fuglsnefi. Hún klofnar svo í fimm ræmur sem rúllast upp og er þá eitt fræ á hverri ræmu. Þannig líkist aldinið helst örlítilli ljósakrónu í blómálfa- eða dúkkuhús!

Blágresi var, og er enn, að einhverju leyti notað til lækninga. Það hefur líka mikið verið notað til að lita með því ull. Með blágresi mun vera hægt að lita bæði svart og jafnvel blátt en þekkingin á því hvernig hægt er að ná fram bláa litnum er nú glötuð.

Vallhumall (Achillea millefolium)

Vallhumall er af körfublómaætt. Vallhumall er algengur um allt láglendi nema helst á Suðurlandi þar sem hann vex þó gjarnan við bæi. Hver karfa er smá og blómin oftast hvít, stundum bleik. Körfurnar eru á stuttum stönglum sem vaxa þétt út úr stöngulendanum svo að blómin mynda þar samfellda heild. Vallhumallinn blómgast um mitt sumar en þó má oft finna hann enn í blóma á haustin þegar skólarnir byrja.

Vallhumallinn þótti ein albesta lækningajurtin og bætti alls kyns kvilla bæði innvortis og útvortis. Plantan er líka ákaflega góð í te og er þá gjarnan notuð í teblöndu með öðrum jurtum svo sem blóðbergi og ljónslappa.

Ættkvíslarheitið Achillea ber nafn hins gríska og nær ósigrandi Akkílesar. Helenu hinni fögru drottningu Grikkja hafði verið rænt og hún flutt til Trójuborgar. Kóngurinn maður hennar var sorgbitinn og sendi her manns að sækja hana. Sterkastur allra var Akkíles vegna þess að hann hafði drukkið mjöð af vallhumli. Grikkjunum lánaðist að bjarga Helenu og Akkíles varð hetja. Vallhumallinn ber nafn hans til að minnast hans. Tegundaheitið millefolium þýðir þúsundblöðóttur enda eru blöð vallhumalsins fjölmörg og margskipt.

Baldursbrá (Matricaria maritima)

Baldursbrá er af körfublómaætt. Baldursbráin fylgir byggð og er oft í röskuðu landi og í fjörum. Blómin eru hvít og gul og krakkar kalla þau stundum „túttublóm“ Íslenskt heiti plöntunnar er kennt við Baldur hinn hvíta ás.

Baldursbráin þótt góð lækningajurt og m.a. var hún talin góð við tannpínu.

Lokasjóður (Rhinanthus minor)

Lokasjóður er af grímublómaætt. Lokasjóðurinn er algengur um allt land á láglendi. Blómin eru óregluleg í laginu, gul á litinn, stundum með fjólubláum bletti og láta ekki mikið yfir sér. Lokasjóðurinn er stundum kallaður peningagras. Það er vegna þess að aldinin, sem geyma fræin, eru kringlótt, flöt og glansandi, ekki ólík litlum peningum. Krakkar tína gjarnan plönturnar og safna úr þeim „peningunum“ til leikja.

Birki (Betula pubescens)

Birki er af bjarkarætt. Birkið er líka kallað ilmbjörk enda leynir ilmurinn sér ekki t.d. eftir regnskúr að vori þegar laufin eru nýútsprungin. Birki er að finna á láglendi um allt land, ef ekki villt í kjarri og skógum þá ræktað í görðum. Það var til skamms tíma eina tréð sem myndaði skóga á Íslandi. Á birkið koma ekki blóm sambærileg og á blómplöntunum sem á undan eru taldar heldur s.k. reklar sem eru ýmist karlreklar eða kvenreklar. Á haustin verða birkiskógarnir oft ákaflega litskrúðugir þegar græni liturinn hverfur úr laufblöðunum og gulir, brúnir og rauðir litir koma í ljós.

Birkið hefur verið nytjað á Íslandi frá upphafi byggðar. Það myndar fallega, gróðursæla skóga sem veita skjól öðrum gróðri, dýrum og mönnum. Viðurinn var notaður í hús og alls kyns smíðar og til kolagerðar. Úr birkilaufum og berki voru bæði útbúin lyf og einnig lituð ull. Te var líka soðið af laufunum og með berkinum mátti lita skinn.

Grenitré

Á Íslandi vaxa nokkrar tegundir grenitrjáa, t.d. blágreni, sitkagreni, rauðgreni og hvítgreni. Þau eru sígræn því að blöðin, sem eru eins og stuttar, stinnar nálar, falla ekki af á haustin. Þannig lauf eru kölluð barr og trén barrtré. Farið var að flytja inn grenitré til skógræktar á Íslandi á 20. öld. Mörg þeirra vaxa vel og geta orðið hávaxin. Á barrtré koma ekki blóm heldur s.k. könglar sem fræin myndast í.

Grenitré eru til margra hluta nytsamleg. Öll þekkjum við ánægjuna sem þau veita okkur sem græn og ilmandi jólatré. Af því að mörg grenitré verða mjög stór þá eru þau mikilvægir timburframleiðendur.

Grámosi

Mosinn þekur víða hraunbreiður eins og lagt hafi verið yfir þær þykkt, mjúkt teppi. Í raun eru þetta óteljandi, smáar plöntur sem vaxa þétt hver upp að annarri. Mosar eru ólíkir öllum hinum plöntunum sem hér hafa verið upptaldar. Stundum er sagt að mosaplöntur séu „frumstæðar“ vegna þess að mosar uxu á jörðinni langt á undan blómplöntunum. Mosar mynda ekki blóm eða fræ en þeir fjölga sér og dreifa með örsmáum gróum. Mosar hafa ekki rætur, en sumir þó s.k. rætlinga, og aðeins agnarsmá laufblöð. Mosar eru til af fjölmörgum tegundum og eru oft, ásamt fléttunum, fyrstu lífverurnar sem ná að vaxa á grjóti eða hraunum og mynda þannig jarðveg fyrir aðrar plöntur.

Heimildir og ítarefni

Ágúst H. Bjarnason, 1983. Íslensk flóra með litmyndum. Iðunn, Reykjavík.
Bisse Falk & Lena Kallenberg, 1995. Barnens flora. Alfabeta bokförlag, Svenska naturskyddsföreningen, Stokkhólmi.
Hörður Kristinsson, 1986. Plöntuhandbókin, blómplöntur og byrkningar. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík
Sveinbjörn Markús Njálsson, 1991. Ég greini tré. Námsgagnastofnun, Reykjavík.

Loka glugga