Álft (Cygnus cygnus)

Álft eða svanur, er stærst íslenskra varpfugla. Hún er alhvít nema með svarta fætur og svartan og gulan gogg. Hún er áberandi og ekkert að fela sig. (Sjá í Leikir: Hvaða litir sjást?) Ungarnir eru grábrúnir.

Álftirnar halda sig einkum á votlendi, á láglendi og á heiðalöndum, og éta alls kyns tjarna- og mýragróður. Þær eru þriggja til sex ára þegar þær fara að verpa. Þær verpa nokkrum eggjum í miklar dyngjur sem oft eru úti í hólmum tjarna. Sumar álftir eru hér á láglendi og við strendur á veturna en flestar eru farfuglar.

Álftir voru áður fyrr nytjaðar, kjötið af þeim étið, fjaðrir til að skrifa með og dúnn í sængur en nú eru þær alfriðaðir. Mikið er til af ævintýrum, söngvum og ljóðum um álftir.

Heiðlóa (Pluvialis apricaria)

Heiðlóan er gjarnan talin fyrsti vorboðinn á Íslandi. Bæði hún sjálf og hljóð hennar eru auðþekkt vor og sumar en á veturna dofnar svartur og hvítur litur hennar og hún verður brúnflikrótt. Hún leggur ekki mikið upp úr hreiðurgerð en lætur sér nægja að gera smádæld í svörðinn, oft í þurrlendismóa. Ungarnir fara líka strax á stjá þegar þeir hafa brotist út úr eggjunum. Á haustin æfa lóurnar farflugið í miklum hópum áður en þær stefna út yfir hafið á vit ævintýranna í útlöndum. Margar sögur, ljóð og vísur eru til um lóuna.

Kría (Sterna paradisaea)

Krían er flugfimust fugla og fer um hálfan hnöttinn til að njóta bjartra nátta og er á suðurhveli í sólskini þegar skammdegi ríkir á norðurhveli. Kríurnar verpa margar saman í kríuvörpum og verja þau mjög vel, oft með miklum flugárásum á þá sem reyna að nálgast vörpin.
Snjótittlingur (Plectrophenax nivalis). Flestir þekkja snjótittlinginn í vetrarbúningi þegar hann hópast til byggða og þiggur að til hans sé kastað korni á freðna jörð. Á sumrin heldur hann til fjalla, skrýðist nýjum búningi og heitir þá sólskríkja. Sólskríkjan býr sér til vandaða hreiðurkörfu og verpir þar 4–7 eggjum.
Skógarþröstur (Turdus iliacus) Skógarþrösturinn er sá fugl sem mest lætur í sér heyra í trjágörðum í þéttbýli en hann heldur sig þó um allt land í skóg- og mólendi. Hann verpir í vönduð hreiður uppi í tré eða niðri á jörð. Hann getur átt 4–6 egg í hreiðri og verpir stundum tvisvar á sumri. Flestir fara fuglarnir til heitari landa á veturna en sumir eru þó staðfuglar og láta sér nægja afgangs ber og fræ sem til falla.

Lundi (Fratercula arctica)

Lundinn er skrautlegur svartfugl sem heldur sig langt úti á sjó á veturna en á vorin við strendur og í fuglabjörgum. Hann verpir bara einu eggi í glufu eða í djúpri holu sem hann grefur sér. Hann hefur lengi verið og er enn nytjaður á Íslandi. Sums staðar í útlöndum er lundi að verða fátíður vegna aukinnar byggðar, umferðar og veiða.

Heimildir og ítarefni

Til eru fjölmargar íslenskar fuglabækur svo sem:
Guðmundur P. Ólafsson, 1988. Fuglar í náttúru Íslands. Mál og menning, Reykjavík.
Sören Sörensen, Dorete Bloch, þýðing: Erling Ólafsson, 1991. Fuglar á Íslandi og öðrum eyjum í Norður Atlantshafi. Skjaldborg, Reykjavík.
Þorsteinn Einarsson, 1987. Fuglahandbókin, greiningarbók um íslenska fugla. Bókaútgáfan Örn og Örlygur, Reykjavík.

Loka glugga