Fléttur (sem sumir kalla skófir) eru undraverðar lífverur. Þær eru ákaflega skemmtilegar til kennslu af ýmsum ástæðum. Þær eru mjög algengar, þær eru sýnilegar allt árið, þær eru fjölbreyttar, um þær eru til skemmtilegar þjóðsögur og af þeim má læra ágæta siðfræði.

Fléttur eru hvað mest áberandi á steinum en víða eru steinar þaktir fléttum af ýmsum gerðum. Margir átta sig alls ekki á að um er að ræða lífverur, halda jafnvel að flétturnar séu einhverjar dauðar slettur á steinunum þótt þeir trúi nú kannski ekki alveg á þjóðsöguna um Kiðhús, kerlinguna og snúð hennar. Aðrir halda að allt sem vex svona á steinum sé „bara mosi“ og gera ekki greinarmun á fléttum og mosa sem þó er mjög mikill. Fléttur vaxa víðar en á steinum t.d. ofan í grassverði á deiglendi eða innan um mosa og annan gróður í móum.

Fléttum er skipt í þrjá hópa eftir gerð. Hrúðurfléttur eru, eins og nafnið bendir til, eins og hrúður t.d. á steinum. Þær eru allar fastar á undirlaginu og ekki hægt að ná þeim af nema að skrapa þær – sem á auðvitað alls ekki að gera. Blaðfléttur eru miklu lausari og flagna oft auðveldlega af steinum því að þær festa sig aðeins lauslega í undirlagið oft aðeins með fínum rætlingum. Margir þekkja líka blaðflétturnar hundaskóf eða engjaskóf sem breiða oft úr sér ofan í grassverði. Flestir þekkja þó runnfléttur eins og fjallagrös og hreindýramosa sem eru eins og smáar, margskiptar greinar og liggja nánast eins og lausar í mosa og öðrum gróðri.

Fléttur eru sambýlisverur. Í þeim búa saman ólíkar tegundir lífvera og mynda eina sérstaka heild. Fléttur eru sambýli sveppa og þörunga (eða ljóstillífandi baktería). Þörungar eru frumbjarga, þ.e. þeir hafa í sér blaðgrænu, (grænukorn) sem ljóstillífar, breytir ólífrænum efnum í lífræn með hjálp sólarljóssins. Þörungar vaxa almennt fyrst og fremst í vatni og eru undirstaða lífs í vatni og sjó. Sveppir eru hins vegar ekki frumbjarga, hafa ekki í sér blaðgrænu – þeir eru ekki plöntur þótt margir haldi svo. Þeir eru, rétt eins og menn og önnur dýr, háðir ljóstillífun plantnanna til að fá fæðu sér til vaxtar og viðhalds. Sveppir vaxa í smásæjum, löngum þráðum í lífrænu efni sem við sjáum ekki nema þegar þeir senda gróhluta sína upp á yfirborðið. Þá ýmist fitjum við upp á nefið og hendum mygluðum matnum eða tínum upp sveppinn af jörðinni til að brytja hann niður í sósu.

Ef litið er á báða þessa lífveruhópa, þörunga og sveppi, er vart hægt að hugsa sér verri stað en þurrt grjót til að lifa á. Þörungar lifa í vatni, sveppir á lífrænu efni. Steinninn er hvorugt. Steinar eru oft þurrir dögum, jafnvel vikum, saman. Þeir verða fljótt kaldir í kulda og heitir í hita svo að á steini eru aðstæður mjög sveiflukenndar og erfiðar. Hvorug þessara lífvera gæti lifað þarna stök, en þegar þörungarnir og sveppurinn hjálpast að sem heild þá sigrast þær á þessum mjög svo erfiðu aðstæðum og meira en það. Þær sigrast á steininum líka. Fléttur gefa gjarnan frá sér efni sem smátt og smátt vinna á steininum og þannig undirbúa þær jarðveginn, í orðanna fyllstu merkingu, fyrir allan annan gróður.

Samvinna lífveranna er á þann hátt að sveppþræðirnir mynda eins og hylki utan um þörungana og koma þannig í veg fyrir að þörungarnir þorni og sveppirnir afla sambýlinu líka steinefna. Þörungarnir hins vegar ljóstillífa, binda orku sólarljóssins, báðum tegundum til vaxtar og viðhalds. Þegar börkurinn á fléttunni (sveppurinn) er þurr eru í honum loftbólur sem gera hann illa gegnsæjan. Þegar fléttan blotnar verður barkarlagið gegnsætt og sólarljósið á greiða leið að þörungunum sem raða sér undir börkinn á þeirri hlið fléttunnar sem snýr að sólu og ljóstillífa grimmt. Fléttur eru flestar gráar eða brúnar en þegar þær eru blautar kemur gjarnan á þær grænleitur blær vegna þess að litur þörunga skín í gegnum börkinn.

Fléttur hafa verið nytjaðar frá ómunatíð. Þær hafa verið notaðar til matar en ekki síður til alls kyns lækninga og jafnvel í snyrtivörur eins og ilmvötn.

Þótt fléttur séu ákaflega þolnar hvað varðar erfiðar náttúrulega aðstæður og miklar sveiflur í hita og kulda, raka og þurrki þá eru þær viðkvæmar fyrir ýmsu því raski sem menn valda. Þær þola t.d. mjög illa loftmengun og hverfa því fljótt úr borgum og nágrenni vega og iðnaðar þar sem er mikil mengun. Þær eru því nánast horfnar af stórum svæðum hinnar þéttbýlu Evrópu bæði vegna mengunar og einnig vegna oftínslu. Þegar þær eru horfnar eiga þær ákaflega erfitt uppdráttar þótt mengun og álag minnki. Aldrei hefur tekist að rækta fléttur, þær tylla sér niður þar sem þeim hentar og vaxa langflestar ákaflega hægt.

Við verðum að umgangast fléttur af mikilli virðingu. Ekki kroppa þær af steinum í hugsunarleysi eða tilgangsleysi. Ekki að tína þær nema í ákveðnum tilgangi og þá með mikilli varkárni. Ef við tökum upp fléttuvaxinn stein verðum við að láta hann snúa eins þegar við leggjum hann niður, ekki bara upp það sem var áður upp heldur líka að sú hlið snúi í norður sem áður sneri í norður.

Loka glugga