Ýmsum hlutum og fjölbreytilegum efniviði með mismunandi áferð er safnað saman, t.d. sandpappír, bylgjupappír, glansandi og möttum pappír, stálull, gæruskinni, efnisbútum, baunum, grjóti o.s.frv.

Hlutirnir og/eða efnisbútarnir eru settir í poka, kassa eða undir dúk. Börnin, eitt og eitt í einu, fá að þreifa á og lýsa hvernig viðkomandi hlutur eða efni er viðkomu.

Einnig geta börnin flokkað hlutina eftir því hvort þeim finnst gott eða vont að koma við þá og einnig eftir því hvernig þeir eru viðkomu (mjúkir, harðir, sléttir, hrufóttir, o.s.frv.) Börnin geta límt efnisbútana á blað.

Heimavinna:
Börnin teikna á blað sem skipt hefur verið til helminga hluti á heimilinu sem eru annars vegar harðir og hins vegar mjúkir. Þegar í skólann er komið segja þau frá.

Áferðasöfnun:
Hér þurfa nemendur hluti með mismunandi áferð, smjörpappír eða annan þunnan pappír og vaxliti.

Börnin velja sér hlut, leggja pappírinn ofan á hann og strjúka yfir með vaxlit. Börnin safna saman sýnishornum af mismunandi áferð og síðan býr hvert þeirra til bók.

Að lokum er hægt að flokka hlutina eftir ýmsum leiðum. Umræður.

Stærðfræði:
Rökkubbar notaðir á fjölbreyttan hátt. Flokkun út frá eiginleikum, lit, þykkt, lögun og stærð.
Formin skoðuð og fengist við margs konar viðfangsefni tengd þeim.

Dæmi:
Ferningur, glansandi pappír.
Hringur, sandpappír.
Þríhyrningur, eldspýtur.
Sexhyrningur, rýjanál og garn.

Heimavinna:
Börnin fást við sams konar verkefni heima, koma með það í skólann og segja bekkjarsystkinum sínum frá.

Fimm dagar – fimm skynfæri

Dagur eitt: Töfragleraugun.
Börnin búa til gleraugu og setja í þau litað sellófan í stað glerja. Kennarinn ákveður nokkra hluti sem börnin eiga að horfa á með og án gleraugnanna. Hvernig eru þeir á litinn án gleraugnanna? Hvernig halda börnin að hlutirnir verði á litinn þegar horft er á þá með gleraugunum? Höfðu þau rétt fyrir sér? Hvernig breytast hinir ýmsu litir ef horft er á þá í gegnum t.d. rauð gleraugu?

Dagur tvö: Gönguferð.
Farið er í ,,hlustunarferð” um nágrennið. Börnin fá kort af hverfinu og merkja gönguleiðina inn á kortið. Síðan skrifa þau eða teikna hljóðin sem þau heyrðu á réttan stað á kortinu. Þau geta einnig teiknað það sem þau heyrðu á blað, klippt myndirnar út og raðað þeim í kringum kortið. Þau tengja myndirnar við réttan stað á kortinu t.d. með bandspotta eða mjóum renning.

Dagur þrjú: Hvaða ávöxtur er þetta?
Epli, banani, appelsína, sítróna, jarðarber og pera. Ávextirnir eru skornir í bita. Ávaxtabitarnir eru settir í jógúrtdollur, einn biti í hverja dollu. Börnin hafa bundið fyrir augun og eiga að þefa upp úr dollunum og segja til um hvaða ávöxt er um að ræða í hverju tilviki. Börnin teikna ávextina.

Uppáhaldsávextir barnanna.
Börnin útbúa sameiginlegt súlurit bekkjarins þar sem fram kemur hvaða ávöxtur þeim þykir bestur.

Dagur fjögur: Mismunandi bragðtegundir.
Umræður um ólíkar bragðtegundir, s.s. sætt, súrt, salt, beiskt.Börnin safna orðum sem tengjast mismunandi bragðtegundum. Skráning og flokkun.
Börnin búa í sameiningu til stóran munn og velja sér hvert og eitt orðmynd og festa á tunguna. Einnig geta þau klippt út myndir úr blöðum og fest á tunguna. (Sætt, súrt, mjúkt, hart, sterkt, veikt, beiskt, gott, vont o.s.frv.)

Dagur fimm: Hvað getum við gert með höndunum?
Hugstormun, skráning. Börnin teikna hendurnar sínar, klippa þær út, velja sér orð af orðalistanum og skrifa það á hendurnar.
Börnin taka hvert og eitt fingraför sín og stimpla á blað. Börnin bera saman fingraförin.

Heimavinna:
Samanburður á handastærð fjölskyldumeðlima. Börnin teikna eftir hendi hvers og eins á heimilinu og bera saman stærðir þeirra. Hver á stærstu höndina? Börnin búa til bók og líma hendurnar inn í bókina og merkja hver á hvaða hönd.

Stærðfræði
Hvað ertu með marga fingur? Hvað eru tvö börn með marga fingur, o.s.frv.?

(© 2002 Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir)

Loka glugga