Heyrnardaufur, heyrnarlaus, heyrnartæki, táknmál.

Vettvangsferð

Börnin fara út fyrir veggi skólans, setjast, loka augum og hlusta. Hvað heyra þau?
Umræður, skráning. Börnin segja frá því sem þau heyrðu, teikna mynd og
skrifa texta við myndina.

Athugun

Hvaða hljóð getum við búið til með líkamanum, s.s. með höndum, fótum og munni.
Hvaða hljóð heyrum við þegar við strjúkum fingurgómunum eftir borðplötu, pappír, sandpappír, ullarefni, silki, málmplötu o.s.frv.
Sjá fleiri hugmyndir í Markvissri málörvun í leik og starfi.

Hægt er að lýsa hljóðum með því að segja til um hvort þau eru sterk eða veik, borið þau saman og flokkað.

Hvernig hljóð heyra börnin þegar þau:
– klappa saman lófum
– stappa niður fótum
– hoppa og ganga
– banka á vegg, gluggarúðu o.s.frv.
– berja í borð með krepptum hnefa
– slá í borð með nöglum og fingurgómum
– krafsa í borð
– smella í góm
– blístra
– núa saman höndum
– bíta í epli?

Börnin skoða mismundandi gerðir af pappír. Hvaða hljóð myndast þegar þau handleika pappírinn? (Sellófan, silkipappír, maskínupappír, sandpappír o.s.frv.)

Hljóðbók

Börnin fá litla bók með auðum síðum. Kennari spilar af snældu mismunandi hljóð og börnin geta sér til um hvaða hljóð er um að ræða og teikna mynd. (Ýmis heimilistæki og umhverfishljóð).

Dósasími

Nemendum er sýnd glæra/mynd af tveimur börnum með “dósasíma” strekktan á milli sín. Á myndinni eru einnig önnur fjögur börn sem segja frá sínum hugmyndum.

Barn 1: ,,Þið munuð heyra betur ef þið notið þykkari þráð/band.”
Barn 2: ,,Þið munuð heyra betur ef annar ykkar fer fyrir hornið.”
Barn 3: ,,Þið heyrið betur ef þið notið stærri dósir.”
Barn 4: ,,Þið heyrið betur ef þið strekkið betur á bandinu.”

Kennari ræðir við nemendur um myndina og fær fram hugmyndir þeirra. Síðan er hægt að leyfa nemendum að prófa sjálfum.

Í tilraunina þarf: Niðursuðudósir af mismunandi stærðum, bandspotta og eldspýtur til að festa bandið inni í dósinni. Einnig er hægt að nota plastglös og e.t.v. bera saman plastglös og dósir. Hvort virkar betur?

Að leggja við hlustir

Nemendum er sýnd mynd/glæra af barni sem leggur glas að vegg og síðan eyrað að glasinu (sjá mynd, botninn á glasinu snýr að veggnum, opið að eyranu). Á myndinni er einnig annað barn sem fylgist með.

Barn 1. ,,Ef maður heldur glasinu svona upp að veggnum getur maður heyrt fólkið í næsta herbergi tala.”
Barn 2: ,,Nei, það er sko ekki hægt. Glasið hlýtur að stoppa það að hljóðið komist í gegn, annars væri gler ekki notað til að hljóðeinangra t.d. á flugvöllum.”

Kennari ræðir við börnin um myndina og fær fram hugmyndir þeirra. Síðan er hægt að leyfa nemendum að prófa sjálfum. Þau geta notað gler- og plastglös og athugað hvort það er einhver munur.Fleiri athuganir tengdar heyrn er að finna í bók Tom Fox, Hljóð

(© 2002 Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir)

Loka glugga