Begga er rautt blóðkorn og hún á heima innan í okkur. Hún er kringlótt og rauð. Begga ferðast mikið um allan líkama okkar með vinum sínum. Vinir hennar eru önnur rauð blóðkorn, hvít blóðkorn og blóðvökvinn, en þau ferðast um pípur eða rör í okkur sem kallast æðar. Hjartað, sem er ofsalega sterkur vöðvi, hjálpar þeim að ferðast með því að ýta þeim áfram.
Einu sinni var Begga blóðkorn að leggja af stað í ferðalag ásamt vinum sínum. Hún var stödd í hjartanu, í vinstri gáttinni en það er lítið hólf. Hún var fallega rauð og frísk og var með fullt af súrefni sem hún ætlaði að færa vinum sínum í stórutánni. Vinir hennar þar eru frumur í vöðvum, beinum og húðinni en Begga er líka fruma. Begga beið spennt í vinstri gáttinni eftir að dyrnar opnuðust niður í vinstri slegilinn en það er stórt hólf í hjartanu.
Dyrnar eru kallaðar lokur og eftir smástund opnuðust þær og Begga rann niður í slegilinn. Lokurnar lokuðust fyrir aftan hana en aðrar dyr opnuðust. Þessi sterki vöðvi sem er í sleglinum dróst svo saman og Begga spýttist inn í stóra slagæð sem kallast ósæð.
Það var sko fjör. Hún fór ofsahratt eftir slagæðunum niður líkamann. Í hvert skipti sem hjartað sló og dældi blóði kipptist hún áfram. Þetta fannst henni alltaf jafn gaman.
Þegar Begga var komin niður í stórutá var hún orðinn svolítið dösuð eftir allan hamaganginn og varð ósköp fegin að hitta vini sína þar. Þeir urðu líka ofsalega ánægðir að fá pakka frá Beggu með súrefni í.
Þeir létu hana fá poka í staðinn og báðu hana að fara með þá til lungnanna þar sem líkaminn gæti losað sig við þá. Vitið þið hvað er í pokunum? Það er rusl, koltvísýringur sem við öndum frá okkur. Nú var Begga orðin þreytt og svöng og svo var hún með fullt af rusli. Hún var ekki lengur fallega rauð heldur var hún orðin dökk, alveg rauðbrún.
Jæja, hún varð að halda áfram ferð sinni og lagði af stað upp bláæðarnar. Hún svamlaði þar en það var ekki erfitt því þegar hjartað dælir rauða blóðinu sogast blóðið í bláæðunum inn í hjartað um leið, bara ekki í kippum eins og í slagæðunum. Þetta var því auðvelt ferðalag. Begga lét sig fljóta með straumnum og hvíldi sig aðeins.
Allt í einu var hún komin að hægri helmingi hjartans og rann inn í hægri gáttina.
Aftur voru dyrnar lokaðar en þær opnuðust fljótlega og Begga fór inn í hægri slegilinn, hálf skítug og þreytt. Lokurnar lokuðust á eftir henni, en Begga varð ekkert hrædd því nú myndi eitthvað skemmtilegt gerast.
Lokurnar að lungnaslagæðinni opnuðust og slegillinn dróst saman og spýtti Beggu út í æðina. Hvílíkur kraftur, þetta var ofsalega gaman, eins og í rússíbana eða vatnsrennibraut.
Hún þaut til lungnanna og fór inn í annað lungað. Þar losaði hún sig við pokana frá vinum sínum og fékk aðra pakka í staðinn með súrefni í.
Nú varð hún aftur fallega rauð og frísk og gat farið í næsta ferðalag um líkamann. Hún renndi sér eftir lungnabláæðinni til hjartans og inn í vinstri gáttina, tilbúin í nýtt ferðalag. Hvert skyldi Begga fara núna, til magans eða kannski í nefbroddinn?
Jóhanna Stella Jóhannsdóttir