Þreifileikur

Kennari setur hlut í poka. Hann fær barn til koma og þreifa á viðkomandi hlut. Barnið reynir að lýsa lögun og gerð hlutarins. Hin börnin reyna að átta sig á um hvaða hlut er að ræða.

Jósef segir

Eitt barnið leikur Jósef. Það stjórnar leiknum og ákveður hvað hin börnin eiga að gera. Barnið sem stjórnar gefur fyrirmæli sem hefjast á ,,Jósef segir” Börnin herma eftir nema þegar orðunum ,,Jósef segir” er sleppt á undan fyrimælum, þá eiga börnin ekki að gera neitt. Þau börn eru úr leik sem ekki fylgja reglum. Það barn sem stendur eitt eftir stjórnar næsta leik og þannig koll af kolli.

Sót (eltingaleikur, útileikur)

Eitt barn hleypur á eftir hinum börnunum og reynir að ná þeim. Nái barnið að snerta annað barn verður það að halda um staðinn þar sem slegið var í það. Þannig verður barnið að halda þar til það hefur náð í næsta barn og svo koll af kolli.

Þrautakóngur

Börnin ganga í halarófu. Eitt barnið er þrautakóngur (eða kennarinn til að byrja með). Þrautakóngur ákveður hvað hin börnin gera. Þegar þrautakóngur hoppar á öðrum fæti gera öll börnin slíkt hið sama.

Hver stjórnar?

Eitt barnið snýr baki í bekkjarsystkini sín. Á meðan ákveða þau hver eigi að stjórna líkamshreyfingum hópsins. Barnið sem stjórnar hóphreyfingunum lyftir t.d. öðrum handleggnum, hoppar jafnfætis o.s. frv. og hin gera slíkt hið sama. Þannig heldur það áfram þar til barnið kemst að raun um hver stjórnar hópnum og þá tekur barnið sem stjórnaði við. (snýr baki í bekkjarsystkini sín o.s.frv.)

Boltaleikur

Eitt barnið heldur á bolta en hin standa andspænis með hendur fyrir aftan bak. Barnið sem er með boltann kastar honum eða þykist kasta honum. Ef börnin láta plata sig og rétta fram hendurnar eru þau úr leik. Ef barn grípur boltann þá tekur það við en hitt barnið fer í hópinn og hefst þá nýr leikur. Ef barn kastar boltanum eiga börnin að grípa.

Jafnvægisleikir

– Hreyfa sig frjálst en ,,frjósa” þegar kennarinn gefur merki (myndastyttuleikur).
– Ganga á planka.
– Hoppa í parís.
– Henda í mark.
– Sippa.
– Snú-snú.

Leikræn tjáning

– Hreyfa sig eftir tónlist, ,,frjósa” þegar tónlistin hættir (myndastyttuleikur).
– Börnin búa til stafi og grunnformin með líkamanum.

(© 2002 Gunnhildur Óskarsdóttir og Ragnheiður Hermannsdóttir)

Loka glugga