Sumir vísindamenn hafa orðið heimsfrægir og minningin um þá lifir. Einn af þeim átti heima á Ítalíu fyrir um 400 árum og hét Galíleó Galílei (15641642). Eitt af því sem hann velti fyrir sér um var hvort hlutir sem falla til jarðar detti allir jafnhratt. Til að fá svar við því klifraði hann upp í skakka turninn í Písa og lét ólíka og misþunga hluti detta niður úr turninum. Hann prófaði þetta aftur og aftur og komst að niðurstöðu. Allir hlutir falla til jarðar á sama hraða ef loftmótstaða er í lágmarki, þyngdarafl jarðar togar alla hluti til sín á sama hraða. Þetta er eitt af náttúrulögmálunum sem allir geta sannreynt sjálfir með tilraunum.
Galíleó Galílei var þó frægari fyrir annað en að láta hluti detta úr skakka turninum. Á þessum tíma héldu flestir enn að jörðin væri miðja alheimsins. Hún væri kyrr en sólin, tunglið og stjörnurnar snerust um hana (jarðmiðjukenningin). Menn voru þó farnir að efast um þetta og sumir vísindamenn héldu því fram að sólin væri í miðjunni og jörðin snerist um hana. Galíleó athugaði fyrstur manna stjörnuhimininn í sjónauka og uppgötvaði ýmislegt, m.a. nokkur af tunglum Júpíters. Hann studdi kenninguna um að jörðin snerist um sólina en ekki öfugt (sólmiðjukenningin). Þessu reiddist páfinn í Róm og heimtaði að Galíleó afneitaði þessari skoðun sinni. Til að lenda ekki í fangelsi neyddist Galíleó til að lýsa því yfir opinberlega að sólmiðjukenningin væri röng. Þeir sem nærri honum stóðu heyrðu þó að eftir að hann hafði lýst því yfir að jörðin væri kyrrstæð þá tuldraði hann í barm sér: Hún snýst nú samt!
Sagan sýnir að oft á fólk erfitt með að trúa uppgötvunum vísindamanna. Þegar fleiri og fleiri vísindamenn komast að sömu niðurstöðum og útskýra þær fyrir fólki verður ný þekking smátt og smátt útbreidd og breytir vitneskju og hugmyndum manna.
Víða í bókum, tímaritum og á vefnum má finna upplýsingar um vísindamenn og störf þeirra.
(© 2003 Sigrún Helgadóttir)