Sigríður Tómasdóttir og Einar Guðmundsson í Brattholti
Sigríður var fædd í Brattholti 24. febrúar 1871 og bjó þar alla sína ævi.
Brattholt var afskekkt, þangað komu helst ferðalangar á leið að Gullfossi. Sigríður og systur hennar fylgdu oft fólki að Gullfossi og þær lögðu fyrsta stíginn niður að fossinum fyrir konungskomuna 1907. Sigríður kom oft að Gullfossi með fólki sem hafði gert sér langa ferð til að skoða fossinn og njóta hans og viðhorf þessa fólks hljóta að hafa haft áhrif á Sigríði.
Sigríður gekk ekki í skóla en var mjög vel lesin. Hún lærði öll algeng störf og vann öll verk bæði úti og inni og var afburða dugleg. Hún var listræn, góður teiknari og mikil hannyrðakona og teiknaði og saumaði myndir af blómum og dýrum.
Sigríður var mikið í löngum ferðum bæði í smalamennsku til fjalla og í kaupstaðarferðum, ýmist gangandi eða á hestum. Rúmlega fertugri var henni boðið til dvalar í Reykjavík sér til fræðslu og skemmtunar en undi sér ekki og fór fljótlega heim aftur.
Árið 1952 brann húsið í Brattholti og Sigríður og Einar misstu aleiguna. Frekar en að flytja frá Brattholti bjuggu þau um sig í hluta fjóssins þangað til þau gátu flutt í nýtt hús árið 1954. Alþingi samþykkti árið 1953 styrkveitingu til Sigríðar vegna brunatjóns og sem viðurkenningu fyrir störf hennar.
Sigríður lést í Hafnarfirði árið 1957 hátt á 87. aldursári. Hennar er fyrst og fremst minnst vegna afskipta sinna af málefnum Gullfoss. Árnesingafélagið, menntamálaráðuneytið og Samband sunnlenskra kvenna reistu henni minnisvarða við Gullfoss árið 1978.
Einar var fæddur 4. nóvember 1904 og var tekinn í fóstur í Brattholti ungur drengur. Hann keypti Brattholt af Sigríði Tómasdóttur árið 1939.
Íslenska ríkið keypti Gullfoss af Einari og eigendum austan árinnar árið 1945 á 15 þúsund krónur. Einar gaf ríkissjóði landið næst Hvítá og Gullfossi árið 1974. Skilyrði Einars voru að erfingjar Sigríðar fengju eina milljón króna en sjálfur vildi hann ekkert.
Einar afhenti Náttúruverndarráði hluta Brattholts, 11. desember 1976, án annarra kvaða en að landið yrði girt fyrir árslok 1977 og að það yrði ævinlega notað í samræmi við anda náttúruverndarlaga.
Einar lést 27. september 1985.
(© 2001 Sigrún Helgadóttir tók saman)