Aðvörun:
Þegar börn eru frædd um umhverfismál verður að gæta þess að þau fyllist ekki ótta eða vonleysi og þeim finnist að við höfum farið svo illa með jörðina að henni sé ekki við bjargandi og ekkert sé hægt að gera. Ef epli er skorið fyrir krakka eins og hér er lýst verður að leggja mikla áherslu á að vissulega sé það svæði jarðar hlutfallslega lítið sem við getum ræktað en hins vegar ríki þar þetta undursamlega lögmál um hringrásir efna. Sama efnið er notað aftur og aftur og verður aldrei búið svo framarlega sem við högum okkur í takt við þetta lögmál og önnur grundvallarlögmál sem náttúran setur. Hver einasti maður skiptir máli.
Efni
Epli.
Hnífur.
(Hnattlíkan).
Umræða: Samanburður á epli og jörðinni
Hvað er líkt með epli og jörðinni?
Bæði eru kúlulaga og hafa takmarkaða stærð. Rétt eins og hægt er að vega og mæla eplið er hægt að finna út stærð jarðar, hún hefur ekkert stækkað síðan hún myndaðist fyrir 4 600 milljónum ára, ekkert efni hefur bæst við. Rétt eins og eplið hefur ekkert stækkað síðan það datt af eplatrénu.
Jörðin er samsett úr lögum, eins og eplið. Ysta lagið, lífhvolfið þar sem líf fær þrifist, er aðeins örþunnt, miklu þynnra hlutfallslega en flusið á eplinu.
Þrátt fyrir mikla leit hefur hvergi fundist annar hnöttur en jörðin sem fóstrar líf. Ákaflega fáir hafa haft tækifæri til að horfa á jörðina úr fjarlægð á sama hátt og við horfum á eplið núna. Hverjir? Geimfarar.
Geimfarar hafa sumir sagt að í raun ætti jörðin ekki að heita jörð heldur ætti hún að heita vatn. Þegar horft er á jörðina utan úr geimnum er það fyrst og fremst blái og hvíti litur vatnsins sem er áberandi, sjór og vötn, ís og ský. Utan úr geimnum sést ekki grænn litur jarðargróðurs.
Hvers vegna ætli við köllum þá hnöttinn okkar jörð?
Sama orðið er notað þegar talað er um jarðveg, mold og um bújörð þar sem ræktuð eru dýr og gróður til fæðuframleiðslu.
Kannski er svarið það að við erum háð því að rækta jörðina. Menn eru landdýr svo að þeir verða að lifa á landi og þeir geta ekki lifað nema þar sem þeir hafa nægan mat. Auðvitað fá menn fæðu úr sjó og vötnum en engu að síður þurfa þeir að rækta jörðina.En hvar á jörðinni geta menn ræktað jörð?
Geimfararnir sjá aðallega lit vatnsins utan úr geimnum. Vatn í einhverju formi þ.e. ferskvatn, sjór eða ís þekur nálægt 3/4 hluta af yfirborði jarðar þar geta menn augljóslega ekki búið og ræktað jörðina.
(Úr eplinu er skorinn fjórðungur og haldið áfram með þann bita, 3/4 hlutar lagðir til hliðar. Fjórðungi eplisins haldið á lofti.)Þessi biti táknar þurrlendi jarðar. Geta menn ræktað allt þurrlendi?
Það geta þeir ekki. Til að rækta þarf að vera vatn og það í hæfilegu magni. Sums staðar er of mikið vatn, t.d. á fenjasvæðum, en á mjög stórum svæðum er of þurrt þar eru eyðimerkur og þær fara því miður stækkandi, svæði eins og Sahara og fleiri. Þar er ekki hægt að rækta land.
Ef allt það land sem er of blautt eða of þurrt til ræktunar er lagt saman kemur í ljós að það er um þriðjungur þurrlendis.(Þriðjungur eplabitans skorinn frá og lagður til hliðar, afganginum haldið á lofti.)
En geta menn þá búið á og ræktað landið sem eftir er?
Nei, það er ekki hægt. Á mörgum stöðum eru há fjöll og miklir fjallgarðar.
(Hægt að skoða brúna litinn á hnattlíkani ef það er við höndina.)
Þar er jarðvegur of grunnur eða of grýttur, í hann vantar næringarefni þetta á t.d. við um stóran hluta Íslands. Og sums staðar er alltaf frost í jörðu eins og í Síberíu og nyrst í Kanada. Ef allt þetta land er lagt saman er það líka um þriðjungur af þurrlendi.(Bitinn sem eftir er er skorinn í tvennt og annar hlutinn lagður til hliðar. Nú er aðeins eftir um 1/12 af eplinu og honum er haldið á lofti.)
Þetta er þá það sem er eftir, þetta er landið sem við lifum á og meira að segja ekki allt þetta, því að við getum bara lifað á flusinu.
(Flusið tekið af þessum litla bita og því haldið á lofti.)
Þetta er sú jörð sem við lifum á og ekki bara við heldur líka fjöldi af dýrum sem eiga líka sinn rétt á að fá að lifa.
Okkur finnst þetta mjög lítill hluti jarðar en þetta hefur alveg gengið í margar milljónir ára og allir geta fengið nóg vegna hringrásanna, vegna þess að við erum alltaf að nota sama efnið aftur og aftur. Auðvitað verðum við að fara vel með þetta fágæta og mikilvæga land.
(© 2003 Sigrún Helgadóttir)