Endursögn sögunnar:*
Fuglabjörg voru mikil búbót fyrrum. Á vorin þegar oft var lítið að hafa matarkyns eftir langan vetur var líf að kvikna í björgunum og fuglar að verpa eggjum í þúsundavís. Þangað var hægt að sækja björg í bú. Það var hins vegar hættulegt að síga í björgin. Oft sáust menn ekki fyrir og slys voru tíð við eggjatöku.

Guðmundur góði Arason biskup var fenginn til að vígja fuglabjörg Drangeyjar ef það gæti orðið til þess að fækka slysum. Hann seig í björgin allt í kringum eyna og skvetti vígðu vatni á klettana. Hann var kominn langleiðina hringinn í kringum eyna og hékk í kaðli við að vígja bjargið. Þá kom grá og loðin loppa út úr bjarginu. Hún hélt á stórum hnífi og reyndi með honum að skera á kaðalinn sem Guðumundur hékk í. Um leið heyrði Guðmundur að sagt var: „Vígðu nú ekki meira, Gvendur biskup: einhvers staðar verða vondir að vera.“ Hnífurinn beit hins vegar ekki á kaðalinn og Guðmundur komst aftur upp á bjargbrúnina.

Þangað kominn sagðist Guðmundur myndi skilja þennan hluta bjargsins eftir óvígðan. Hann ráðlagði mönnum að halda sig frá honum og þá myndi þeim farnast vel við eggjatöku. Gekk það eftir.

Umræður:
Ætli þetta hafi gerst í alvöru?
Kannski sá Guðmundur og heyrði þetta gerast, kannski fannst honum þetta hafa gerst en kannski bjó hann bara söguna til.
Ef hann bjó söguna til, hvers vegna ætli hann hafi þá gert það?

  1. Kannski sá Guðmundur að þetta var hættulegasta bjargið í eynni. Með því að segja að þar væri tröll varð fólk hrætt við þetta bjarg sem farið var að kalla Heiðnaberg. Menn sigu þá ekki í hættulegasta bjargið og með því fækkaði slysum.
  2. Það að enginn seig í Heiðnaberg þýddi að þar fengu fuglarnir að vera í friði, það yrðu aldrei tekin öll eggin úr eynni. Lífsferilshringur fuglanna yrði aldrei slitinn. Ef fólk tæki ár eftir ár öll egg sem hægt væri að ná í gæti farið svo að fuglunum fækkaði og þá yrði alltaf minna og minna að hafa úr björgunum.

Fleiri sögur með sama þema
Fjölmargar þjóðsögur eru til með svipaðan boðskap. Sjá t.d. Skötutjörn í Fróðleikshorni með Komdu og skoðaðu land og þjóð og ýmsar þjóðsögur um huldufólk í þjóðsagnasöfnum.
Þemað er það sama:
Fara vel með, ekki klára upp til agna, ekki slíta lífsferilshringinn.

* Sagan um Guðmund góða í Drangey er miklu lengri og ítarlegri í þjóðsögum. Sjá t.d. Vígð Drangey á bls. 69–73 í Íslenskar þjóðsögur og ævintýri tekin saman af Einari Ól. Sveinssyni.

(© 2003 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga