Á Íslandi er rafmagn að miklu leyti framleitt í vatnsaflsstöðvum þar sem sólarorkunni í hringrás vatnsins er breytt í raforku (sbr. texti og mynd á bls. 16 og 17 í bókinni) en einnig er jarðvarmi nýttur til rafmagnsframleiðslu. Erlendis er rafmagn framleitt á ýmsan annan hátt.
Jarðefnaeldsneyti
Kolanámur urðu til þar sem mikill viður, eða aðrar leifar plantna, lokuðust inni í jarðlögum. Margar þeirra mynduðust fyrir um 300 miljónum ára. (Þau kol sem íslenskir krakkar þekkja þó líklega helst nú til dags, viðarkolin (grillkolin) eru útbúin úr timbri/trjám.) Olíulindir og jarðgas mynduðust þar sem lífmikil vötn lentu á milli jarðlaga einnig fyrir mörgum milljónum ára.Orka kolanna, og sú orka sem knýr bíla nútímans, á því rætur að rekja til sólarorkunnar sem lék um jörðina fyrir mörgum milljónum ára og lífverur þess tíma bundu í líkömum sínum. Í kolum og olíu er ekki aðeins bundin orka heldur líka kolefni og þegar jarðefnaeldsneyti brennur losnar mikið magn af koltvísýringi út í loftið og veldur mengun og gróðurhúsaáhrifum. Kolanámur og olíulindir eru takmarkaðar auðlindir. Þær mynduðust við sérstakar aðstæður fyrir óratíma og þær eyðast þegar af þeim er tekið. Með sama áframhaldi verða þær einn góðan veðurdag uppurnar. Notkun þeirra er því ekki sjálfbær, hún getur ekki endalaust haldið áfram með sama hætti og nú.
Vatnsaflsstöðvar
Vatnið er endurnýtanleg auðlind og skynsamleg virkjun þeirrar orku sem býr í hringrás vatnsins er sjálfbær. Vatnsaflsstöðvar í hreinum ám hafa ótakmarkaðan líftíma með eðlilegu viðhaldi mannvirkja. Framleiðsla á rafmagni í vatnsaflsstöðvum er ekki mengandi á sama hátt og þegar rafmagn er framleitt með brennslu jarðefnaeldsneytis.Hins vegar geta stórar virkjanir haft mikil umhverfisáhrif. Miðlunarlónin færa oft í kaf mikilvæg gróðurlendi og búsvæði. Miðlunarlón í jökulám fyllast smám saman af jökulaur. Þau hafa því tiltölulega skamman líftíma og virkjanir sem byggjast á slíkum miðlunarlónum teljast ekki sjálfbærar. Breytingar sem þar verða á landi eru óafturkræfar því að þótt stíflan sé fjarlægð er landið bak henni horfið í jökulaur. Sums staðar breyta virkjanir ósnortnu landi í manngert umhverfi. Ósnortið land er fátítt á jörðinni. Fólk sem býr í þéttbýli sækist eftir að fara um og njóta ósnortins lands eða finnst mikilvægt að vita af því að slíkt land er til. Margir spyrja sig líka hvort maðurinn hafi rétt á að breyta sífellt meira og meira landi og skilja lítið eftir. Náttúran á að hafa sinn rétt og komandi kynslóðir manna eiga líka rétt á að fá að njóta ósnortinnar náttúru.
Jarðvarmi
Rafmagn á Íslandi er líka framleitt með jarðvarma. Hann á ekki rætur sínar að rekja til sólarinnar á sama hátt og hinir orkugjafarnir. Orkan í iðrum jarðar er leifar ógnarkraftsins í miklahvelli þegar veröldin myndaðist.Vatn af yfirborði jarðar sytrar niður í jörðina og safnast þar saman sem grunnvatn. Þar sem eru kvikuhólf í jarðlögum hitnar grunnvatnið og leitar upp á yfirborð jarðar á jarðhitasvæðum. Heita vatnið er notað til húshitunar en orkuna í því má einnig nota til rafmagnsframleiðslu. Jarðvarma þarf að nýta af skynsemi. Ef meira af heitu grunnvatni er dælt upp úr jörðinni en sem rennur til svæðisins og hitnar þar, þá minnkar vatnsmagnið eða hitastig þess lækkar.
Vindrafstöðvar
Á fyrri hluta 20. aldar voru litlar vindrafstöðvar algengar á sveitabæjum á Íslandi. Þær voru festar uppi á þaki bæjanna og þegar vindur blés snerust spaðar þeirra og framleiddu rafmagn sem nýttist fyrst og fremst til að lýsa upp húsin. Þetta var ákaflega óstöðug rafmagnsframleiðsla. Í logni var ekki hægt að kveikja ljós og í of miklu roki gat þurft að binda spaðana niður til að þeir fykju ekki út í buskann.Nú eru framleiddar fullkomnar vindrafstöðvar og notaðar víða erlendis. Þær eru t.d. algengar í Danmörku. Kostir vindrafstöðva eru að þær valda ekki loftmengun og þær nýta vindorkuna sem stöðugt er viðhaldið með orku sólar. Þetta er því sjálfbær orkuöflun. Hins vegar er kvartað yfir að vindrafstöðvar séu ekki fallegar, valdi sjónmengun og hávaða. Þær breytingar eru hins vegar afturkræfar. Ef komandi kynslóðir finna betri leiðir til rafmagnsframleiðslu geta þær tekið vindrafstöðvarnar niður.
Sólarrafhlöður
Í sólarrafhlöðum er sólarorkan virkjuð beint og henni breytt í rafmagn. Á sólríkum svæðum erlendis er algengt að fólk sé með sólarrafhlöður á þökum til að framleiða rafmagn fyrir viðkomandi hús. Litlar sólarrafhlöður eru algengar á íslenskum fjallaskálum sem eru oft fjarri raflínum. Rafmagnið er þar ekki síst notað á talstöðvar og önnur fjarskiptatæki sem eru mikilvæg á þessum stöðum. Gervitungl eru líka yfirleitt með sólarrafhlöður. Sumir telja að notkun sólarrafhlaðna eigi eftir að aukast verulega og t.d. mætti setja upp miklar sólarrafhlöður á sólríkum eyðimörkum, s.s. í Sahara, og leiða þaðan orku til þéttbýlla staða eins og Evrópu. Um er að ræða stöðuga og sjálfbæra orkuöflun og umhverfisbreytingar sem af nýtingunni hljótast eru afturkræfar.Sjávarfallaorka
Á hverjum sólarhring er tvisvar sinnum flóð þar sem sjór fellur að landi og jafn oft fjara. Sums staðar hafa þessar stöðugu hreyfingar sjávar verið virkjaðar. Í fjöruborði sjávar er komið fyrir hverflum sem geta snúist í báðar áttir og knýja rafala sem framleiða rafmagn, bæði þegar fjarar út og inn. Sjávarföllin stafa af aðdráttarafli tungls og sólar en af því að tunglið er miklu nær jörðinni en sólin þá eru áhrif þess meiri þótt það sé miklu minna en sólin. Ekki er við öðru búist en að tunglið haldi áfram hringferð sinni um jörðu svo að sjávarfallaorkan er stöðug, virkjanirnar sjálfbærar og umhverfisbreytingar afturkræfar.
(© 2003 Sigrún Helgadóttir)