Afkomandi einhvers er barn, barnabarn ... eða mörgum sinnum barnabarn hans.
Afskekkt byggð er byggð sem er langt frá annarri byggð.
Alþingi var stofnað á Þingvöllum árið 930 og var haldið þar á hverju sumri í nokkur hundruð ár. Menn komu ríðandi á hestum alls staðar að af landinu til að vera á Þingvöllum í tvær vikur og tala saman og taka ákvarðanir um ýmis mál. Leið þingmanna sem komu frá Norður- og Austurlandi var meðfram Skjaldbreiði.
Aska er duft sem myndast þegar eitthvað brennur. Í eldgosum þeytist aska oft langt upp í loftið og berst með vindum langar leiðir, jafnvel til annarra landa.
Askja getur myndast þegar stórt gos verður í megineldstöð. Þá tæmist kvikan úr hólfinu í fjallinu og fjallið hrynur niður í það. Þá myndast djúp dæld, askja, í fjallið.
Álfar eru ósýnilegar verur. Sumir álfar eru huldufólk en aðrir álfar geta verið með ýmsu móti. Þeir eru oft litlir og búa víða í náttúrunni eins og blómálfar.
Áratugur er tíu ár.
Ás – æsir (ft.). Landnámsmenn á Íslandi trúðu flestir á marga guði sem voru kallaðir æsir. Einn ás, margir æsir. Snæfellsás var því nokkurs konar Snæfellsguð.
Átrúnaður er að trúa á eitthvað.
Bjargvættur er einhvers konar verndarandi eða sá sem hjálpar.
Bólstraberg myndast þegar hraunstraumar haldast saman og kólna hratt við mikinn þrýsting undir vatni eða jökli. Bólstraberg lítur oft út eins og hlaði af útroðnum pokum og er algengt neðst í móbergsfjöllum á Íslandi.
Bragur er kvæði.
er bóndabær, bær þar sem fólk býr og vinnur við að sjá um húsdýr eins og kýr og kindur.
Drag er lægð í landslagi.
Dulítill er dálítill.
Dyngja, orðið er notað um fjöll sem myndast á sama hátt og Skjaldbreiður. Orðið þýðir líka ýmislegt annað t.d. hrúga eða haugur. Álftarhreiður er líka kallað dyngja en hreiðrið er stór hrúga af alls kyns stráum. Í gömlu, íslensku torfbæjunum voru herbergi, þar sem konur sváfu eða unnu, stundum kallaðar dyngjur.
Eftirlifendur manns eru þeir sem lifa eftir að maðurinn er dáinn.
Eldhryggur er eldfjall sem myndast í kringum aflangan gíg, sprungu, sem gýs oft.
Eldkeila er eldfjall sem myndast utan um kringlóttan gíg í mörgum gosum.
Eldstöð er staður þar sem hefur verið eldgos.
Ferkílómetri er jafnstórt landsvæði og ferningur sem er einn kílómetri á hlið.
Fjölbreyttur er að vera margvíslegur, fjölbreyttir litir eru margir litir, fjölbreytt landslag er margs konar landslag.
Fljótsdalshérað og Borgarfjörður eystri eru nöfn á sveitunum nálægt Dyrfjöllum. Byggðir á Íslandi hafa allar sín nöfn.
Flykkjast er að mynda stóra hópa.
Forfaðir manns er einhver sem er langa, langa, langa ... (mörgum sinnum langa) afi manns.
Formfagur er fallegur í laginu.
Fóstbræður eru þeir kallaðir sem hafa lofað hvor öðrum að hjálpast alltaf að.
Friðland er friðlýst land.
Friðlýst land er land sem reynt er að breyta sem allra minnst til dæmis með vegum eða húsum. Þetta eru merkileg svæði og þess vegna má ekki skemma þau heldur á að leyfa fólki að skoða þau, líka því fólki sem á enn eftir að fæðast.
Frjósamt land er land þar sem er mikill gróður og auðvelt að rækta.
Fuglabjörg eru víða meðfram ströndum. Þetta eru brattir klettar með alls kyns holum og syllum þar sem sjófuglar geta verpt eggjum og alið upp unga sína.
Fyglingur er maður sem sígur í fuglabjörg til að ná þar í egg og unga.
Gil er djúp skora sem lækir eða ár hafa grafið ofan í landið.
Gígur er djúpt op í jörðina sem bráðið grjót, kallað kvika, kemur upp úr í eldgosum.
Gjá er djúp sprunga í jörðina.
Gjóska er efnið sem þeytist upp í loftið í eldgosum og og berst stundum langt frá eldstöðinni. Hluti af gjóskunni er aska en svo eru líka steinar og möl.
Glíma er gömul, íslensk íþrótt. Þá reyna tveir vopnlausir menn að fella hvor annan með ákveðnum aðferðum eða brögðum.
Gljúfur myndast þar sem ár grafa sig niður í landið og flytja efnið sem þar var í burtu.
Gnæfa er að rísa hátt upp.
Gosbelti. Á gosbeltum er mikið af eldstöðvum. Stærsta gosbeltið er þar sem jarðskorpan er sprungin og jarðskorpu-flekarnir eru að fljóta hvor frá öðrum. (Sjá líka bókina Komdu og skoðaðu land og þjóð.)
Gosmökkur er reykurinn sem stígur upp af eldgosum.
Grasafræði er fræðigrein eða námsgrein um plöntur.
Grösugur dalur er dalur þar sem vex mikið gras og annar gróður. Þar er því gott að vera með bú.
Hafís getur myndast á sjónum í miklu frosti á löngum tíma. Stundum rekur líka ís á hafinu úr norðri til Íslands.
Hagfræðingur er maður sem hefur lært og rannsakað hvernig fólk getur fengið ýmislegt sem því þykir gott í lífinu eða hvernig fólk fer með þessi gæði.
Harðbýlt er þar sem er erfitt að búa, þar sem er óvenju kalt eða sumarið stutt.
Háleistur er sokkur sem nær upp að hné.
Háslétta er þar sem mörg jarðlög hafa lagst hvert ofan á annað.
Hekla. Ekki er alveg vitað hvað orðið hekla þýðir. Flestir telja að fjallið hafi fengið nafn sitt af flík sem menn notuðu til forna. Hekla var þá stutt kápa, ermalaus og með hettu.
Hérað er byggð eða sveit.
Hirð er sérstakur hópur fólks sem vinnur með kóngum og drottningum eða þjónar þeim.
Hlýskeið. Á ísöld skiptust á hlýskeið þegar var hlýtt og jöklar bráðnuðu og kuldaskeið þegar var kalt og jöklar stækkuðu. Í bókinni Komdu og skoðaðu landnámið er fjallað um hlýskeið og kuldaskeið.
Hraun rennur frá eldstöðvum í eldgosum. Þegar það er storknað er það venjulega óþétt, fullt af holum og glufum sem vatn rennur auðveldlega í gegnum.
Hraungjóta. Gjóta er hola ofan í jörðina og hraungjóta er því hola ofan í hraun.
Hraunjaðar er þar sem hraunið endar. Þar koma oft upp á yfirborðið neðanjarðarár sem hafa runnið undir hrauninu.
Hraunlag. Þegar hraun rennur um yfirborð jarðar myndast jarðlag sem er kallað hraunlag. Ofan á það getur svo komið annað jarðlag t.d. úr móbergi, mold eða sandi og þannig áfram.
Hreysi er mjög lélegt hús eða kofi.
Hringbrot sérstakur leikur, stundum eins og hálfgerður dans.
Huldufólk er ósýnilegt fólk sem er talið búa í klettum. Sumir sjá það stundum og segja að það sé svipað venjulegu fólki en fallegra og bústaðir þess líka betri en hús manna. Mjög margar þjóðsögur eru til um huldufólk.
Hvannarót er rót af plöntunni hvönn.
Hvelfing er rými eða þak sem er eins og skál á hvolfi.
Hvönn er stórvaxin planta sem vex víða um land oft meðfram ám og lækjum. Hvannir voru áður mikið notaðar bæði í mat og lyf.
Hyggja að mörgu er að gá að mörgu eða athuga margt.
Höfuðborg lands er sá staður þar sem stofnanirnar eru sem stjórna landinu, svo sem þing og stjórnarráð. Oft er höfuðborg líka stærsta borg landsins en ekki alltaf. Í bókinni Komdu og skoðaðu land og þjóð er talað um höfuðborgina Reykjavík.
Innri öflin sem móta landið er eldvirknin. Eldgosin skapa og byggja upp fjöll og hraun og alls kyns jarðlög.
Íslendingasögur eru sögur sem voru skrifaðar á Íslandi fyrir mörg hundruð árum. Þær segja mest frá Íslendingum fyrstu 200 árin eftir að þeir fluttu til Íslands.
Ísöld. Á ísöld voru jöklar miklu stærri en þeir eru núna og huldu stundum allt Ísland. Ísöld lauk fyrir rúmlega 10 þúsund árum.
Ítalía er land suður við Miðjarðarhaf og þar eru nokkur eldfjöll.
Jaðar er brún eða kantur, það sem er á jökuljaðri er á brún jökulsins.
Jafnt og þétt, fjallið hækkar jafnt og þétt þýðir að fjallið hækkar hvergi mikið í einu heldur alls staðar smátt og smátt. Þegar gengið er á Skjaldbreið þá er alltaf gengið svolítið upp í móti, lengi, lengi en hvergi klifrað.
Jarðefni eru efni úr jörðinni eða sem jörðin er gerð af.
Jarðfræði er sú grein náttúrufræði sem fæst við jörðina, efnasamsetningu hennar og hvernig hún hefur orðið til og mótast með innri og ytri öflum.
Jarðfræðingur er maður sem hefur lært jarðfræði í háskóla. Hann vinnur oft við að rannsaka eldgos, jökla og margt fleira.
Jarðlag er lag af einhvers konar efni, til dæmis hraun eða sandur, sem þekur stórt svæði. Með tímanum kemur annað lag ofan á það og síðan fleiri og fleiri.
Jarðlagastafli er stafli af jarðlögum oft af mörgum gerðum.
Jarðskjálfti myndast þegar jarðskorpan hreyfist en það gerist til dæmis þegar kvika þrýstist upp á yfirborð jarðar í eldgosum.
Jökulár renna frá jöklum. Vatnið er blandað leðju úr bergmylsnu sem jökullinn hefur mulið undir sér.
Jökulhlaup eru stór og skyndileg flóð sem koma í jökulár.
Jökull myndast þar sem meiri snjór fellur á veturna en sem nær að bráðna á sumrin. Snjórinn safnast saman og breytist í ís eða klaka. Jökullinn getur ekki stækkað endalaust svo að hann skríður hægt og hægt út frá miðjunni og við jaðar jökulsins myndast skriðjöklar.
Kalk er bergtegundir eða steindir sem innihalda mikið magn af ákveðnu efni, kalsíum. Í bókinni Komdu og skoðaðu umhverfið er sagt frá nokkrum bergtegundum og steindum.
Kuldaskeið Á ísöld skiptust á hlýskeið þegar var hlýtt og jöklar bráðnuðu og kuldaskeið þegar var kalt og jöklar stækkuðu. Í bókinni Komdu og skoðaðu landnámið er fjallað um hlýskeið og kuldaskeið.
Kvika er bráðið berg niðri í jörðinni sem kemur upp á yfirborð jarðar í eldgosum.
Landnám er þegar einhver sest að í landi þar sem enginn er fyrir.
Landnámsmenn voru þeir menn sem fyrstir komu til Íslands og settust að.
Landnemar er sama og landnámsmenn.
Landvættur er vera sem býr í landinu og heldur vörð um það.
Lind er vatn sem kemur upp á yfirborðið til dæmis við hraunjaðra. Vatnið er oft búið að renna langt í gegnum hraunið sem hefur síað öll óhreinindi úr vatninu.
Lífríki einhvers svæðis eru allar lifandi verur sem á svæðinu lifa.
Mannvirki eru byggingar sem menn hafa búið til.
Megineldstöð er eldstöð sem hefur gosið oft. Þar myndast fjall utan um eldgíginn. Innan í megineldstöðvum eru stór hólf sem kvikan safnast í á milli gosa.
Miðaldir er tímabil í sögunni frá því um 1300 – 1550.
Milljón er þúsund sinnum þúsund.
Móberg er berg sem myndast þegar eldgos verður undir vatni. Þá rennur ekki hraun heldur breytist kvikan í gjósku sem þeytist í loft upp í sprengingum. Svo límist gjóskan saman og myndar móberg.
Mór, mógröf. Mór er ákveðið jarðlag sem myndast undir yfirborði í mýrum eða þar sem land er blautt. Í mónum er mikið af plöntuleifum sem ekki hafa náð að rotna í jarðveginum. Mórinn var grafinn upp og þurrkaður og notaður sem eldsneyti. Þar sem mór hefur verið grafinn upp myndast holur sem eru kallaðar mógrafir.
Möttulstrókur er þar sem óvenju mikið af efni, djúpt neðan úr jörðinni, leitar upp í yfirborð hennar. Yfir möttulstrókum bungar jarðskorpan upp og þar er mikil eldvirkni. Undir Íslandi (Vatnajökli) er einn öflugasti möttulstrókur jarðar.
Náma og námugröftur. Náma er þar sem verðmæt efni eru grafin úr jörðu. Þar er því námugröftur.
Náttúran er allt í kringum okkur, land, loft, vatn, sjór, himinn. Menn breyta náttúrunni með framkvæmdum og búskap og þá er stundum talað um manngert umhverfi.
Náttúrufræðingur er sá sem hefur verið í háskóla og lært þar sérstaklega um náttúruna.
Náttúruvernd er að ganga vel um náttúruna til að hún skemmist ekki og til að þeir sem eiga eftir að lifa á jörðinni hafi tækifæri til að njóta hennar eins og þeir sem nú lifa.
Neðanjarðará myndast oft undir hraunum. Vatn sem fellur á hraunið rennur niður í gegnum það þangað til það kemur að þéttu jarðlagi. Þá rennur vatnið efir því jarðlagi oft langar leiðir neðan jarðar.
Niðursokkinn er sá sem er að hugsa djúpt um eitthvað og gleymir þá oftast öllu öðru í kringum sig.
Rannsaka, þegar eitthvað er rannsakað er það skoðað mjög vel. Oft er verið að reyna að uppgötva eitthvað nýtt um það sem verið er að skoða til að hægt sé að segja frá því eða skrifa um það.
Rekaviður eru trjádrumbar sem lenda í sjónum, berast með honum og lenda uppi í fjörum,oft langt frá þeim stað þar sem ferð þeirra hófst.
Rjúfa er að brjóta.
Sandar myndast þar sem jökulár renna um. Bergmylsnan í ánum fellur niður á botn þeirra og sest þar. Áin breytir oft um farveg svo að hún getur dreift bergmylsnu um stórt svæði. Þá myndast stór landflæmi þakin sandi.
Sjófuglar eru fuglar sem búa við sjóinn, taka alla fæðu sína úr sjónum og koma helst bara í land til að verpa eggjum og ala unga.
Skáld eru menn og konur sem búa til ljóð eða kvæði.
Skáldsaga, saga sem ekki er sönn heldur samin af einhverjum og segir frá atburðum sem ekki hafa gerst í alvörunni.
Skjaldbreiður þýðir líklega breiður eða stór skjöldur. Sumum finnst að orðið eigi að vera kvenkyn og það eigi að segja hún Skjaldbreiður. Jónas Hallgrímsson notaði orðið í karlkyni, hann Skjaldbreiður, og þess vegna er það líka gert í bókinni um fjöllin.
Skriðjökull er tunga úr ís sem rennur hægt út frá jökli. Á endanum bráðnar skriðjökullinn í jökulá sem rennur til hafs.
Skörðóttur, það sem er skörðótt er með skörð ofan í sig. Sög er til dæmis skörðótt.
Stúdent er nemandi sem hefur lokið stúdentsprófi eða sem er að læra í háskóla.
Sveitarómagar voru börn sem ekki áttu fjölskyldu sem ól þau upp eða fullorðið fólk sem gat ekki séð um sig sjálf. Sveitarómögum var komið fyrir á heimilum og sveitin borgaði fyrir þá. Margar sögur eru um að sveitarómagar hafi átt slæma ævi.
Sylla er hilla eða stallur.
Tálgusteinn eru steinar af ýmsum gerðum en svo mjúkir að það er hægt að tálga þá til.
Tígulegur fallegur og tignarlegur.
Tortíma er að deyða eða eyðileggja.
Tröll eru stór og klunnaleg og sögð búa í hellum í fjöllum. Margar þjóðsögur eru um tröll. Þau eru oftast talin ill. Grýla er frægasta tröllskessa á Íslandi.
Tröllskessa er kvenkyns tröll.
Útilegumaður er maður sem býr ekki í mannabyggð heldur einhvers staðar á fjöllum.
Útlegð. Þegar sakamenn voru dæmdir í útlegð urðu þeir að fara að heiman og úr byggð eða jafnvel til annarra landa.
Virk eldstöð er eldstöð sem hefur gosið á síðustu 10 þúsund árum.
Viti, vitavörður. Viti er hátt hús eða turn niður við sjó sem gefur frá sér ljósmerki til að vara skip við. Vitavörður er sá sem gætir vitans og sér til þess að ljós hans lifi.
Vísindaskáldsaga er skáldsaga sem oft er látin gerast í framtíðinni eða þar sem eru til alls kyns tækni sem ekki þekkjast þegar sagan er skrifuð.
Vættur er vera sem ekki er úr mannheimi.
Ytri öflin sem móta landið eru jöklar, vatn og vindur sem brjóta niður og móta landið sem innri öflin hafa byggt upp.
Þéttast. Vatn þéttist í lofti. Í loftinu eru örsmáir vatnsdropar svo litlir að við greinum þá ekki. Þegar loftið kólnar, t.d. þegar það fer yfir fjöll, þá þéttast þessir smáu dropar. Margir saman mynda þeir regndropa sem geta verið svo þungir að þeir falla til jarðar.
Þéttbýli er þar sem margir búa og vinna í húsum sem standa þétt við götur og stræti. Ólíkt og í dreifbýli þar sem fáir búa og getur verið langt á milli bústaða fólks.
Þjóðgarður er svæði sem er svo merkilegt eða fallegt að ákveðið er að vernda það, láta náttúruna vera í friði, og leyfa fólki að skoða svæðið. Í bókinni Komdu og skoðaðu land og þjóð er sagt frá þjóðgörðum.
Þjóðsaga er saga sem fólk hefur sagt hvert öðru lengi, lengi en enginn veit hver samdi hana eða sagði hana fyrst.
Þjóðtrú er trú fólks á alls kyns dularfullar verur, atburði og fyrirbæri.
Þverhnípt bjarg, svo brattir klettar að þeir eru næstum eða alveg lóðréttir.
Öld er hundrað ár.
Öræfi, eyðimörk eða óbyggðir.
Öskufall er þegar eldfjallaaska fellur á jörðina eins og úrkoma væri.
Öskulag myndast á jörðinni í öskufalli. Smátt og smátt myndast nýr jarðvegur ofan á öskulaginu. Þegar grafið er í jörðu sjást oft öskulög í jarðveginum.

© 2004 Sigrún Helgadóttir

Loka glugga