Í gamla daga voru menn stundum ekki dæmdir í fangelsi ef þeir gerðu eitthvað rangt heldur í útlegð. Þá þurftu þeir að bjarga sér sjálfir einhvers staðar langt frá öðru fólki.

Eyvindur Jónsson var fæddur 1714 í Árnessýslu. Þegar hann var 32 ára gamall var hann sakaður um þjófnað. Þá flúði hann fyrst í aðra sveit þar sem sagt er að hann hafi kynnst ekkjunni Höllu. Saman flúðu þau svo til fjalla. Eftir það var hann í mörg ár víða um land, aðallega á hálendinu, til dæmis á Hveravöllum á Kili og í Hvannalindum norðan Vatnajökuls. Halla Jónsdóttir var með honum í útlegðinni í um áratug og stundum voru með þeim aðrir útilegumenn. Sagt er að Eyvindur hafi verið á fjöllum í um 20 ár og hafi þá getað flutt aftur til byggða og dáið þar.

Líf útilegumanna hefur ekki verið auðvelt. Fjalla-Eyvindur var þekktur fyrir hvað hann var ráðagóður og laginn í höndum. Hreysi sín byggði hann yfir lindir. Lindarvatnið frýs ekki, gefur frá sér örlítinn yl og hann þurfti þá ekki að fara út til að ná sér í vatn að drekka. Útilegumenn hafa reynt að stela sér skepnum og halda í þeim lífi á fjöllum. Þeir hafa líka orðið að nýta allt sem hægt var til matar og áhalda. Fjalla-Eyvindur gat til dæmis fléttað körfur úr rótum svo þéttar að þær héldu vatni. Til eru gripir á söfnum, t.d. á Þjóðminjasafninu, sem sagt er að Fjalla-Eyvindur hafi gert.

Líf útilegumanna hefur orðið tilefni til margs konar sagna, kannski að einhverju leyti sannra en flestar eru þjóðsögur. Útilegumenn hafa líka haft áhrif á listamenn. Jóhann Sigurjónsson samdi leikrit um Fjalla-Eyvind og Höllu og eftir því var gerð kvikmynd snemma á 20. öld. Ásgrímur Jónsson málaði málverk af útilegukonu sem á að vera Halla, Einar Jónsson gerði fræga styttu af útilegumanni og skáld hafa ort um útilegumenn. Mjög margir kunna ljóðið Á Sprengisandi eftir Grím Thomsen og geta sungið það við lag Sigvalda Kaldalóns.

Á Sprengisandi
Ríðum, ríðum og rekum yfir sandinn,
rennur sól á bak við Arnarfell.
Hér á reiki er margur óhreinn andinn,
úr því fer að skyggja á jökulsvell.
Drottinn leiði drösulinn minn,
drjúgur verður síðasti áfanginn.

Þei, þei! Þei, þei! þaut í holti tófa,
þurran vill hún blóði væta góm,
eða líka einhver var að hóa
undarlega digrum karlaróm.
Útilegumenn í Ódáðahraun
eru kannski að smala fé á laun.

Ríðum, ríðum, rekum yfir sandinn,
rökkrið er að síga á Herðubreið.
Álfadrottning er að beisla gandinn,
Ekki er gott að verða á hennar leið.
Vænsta klárinn vildi ég gefa til
að vera kominn ofan í Kiðagil.

(© 2004 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga