Snæfellsjökull er í Snæfellsnes- og Hnappadalssýslu. Hann er eldkeila eins og Öræfajökull og er 1446 metra hár. Myndun fjallsins hófst fyrir um 700 þúsund árum. Á síðustu 10 þúsund árum hefur það gosið meira en 20 sinnum. Þrjú gosanna hafa verið mjög stór, fyrir um 9000 árum, um 4000 árum og 1800 árum. Mikill gígur er í toppi fjallsins, fullur af ís. Við hann eru þrír hæstu tindar fjallsins. Þeir eru kallaðir Þúfur. Gamlar þjóðsögur segja að menn hafi gengið á Snæfellsjökul. Þeir sem sannanlega gengu fyrstir á hann voru Eggert Ólafsson og Bjarni Pálsson árið 1753, þeir sömu og höfðu fyrstir gengið á Heklu þremur árum áður. Þeir gengu á jökulinn á íslenskum, heimatilbúnum skinnskóm. Nú ganga margir hópar ferðamanna á jökulinn á hverju ári og sumir aka þangað á vélsleðum.

(© 2004 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga