Alþingi var stofnað á Þingvöllum
árið 930 og var haldið þar á hverju sumri í
nokkur hundruð ár. Menn komu ríðandi á hestum
alls staðar að af landinu til að vera á Þingvöllum
í tvær vikur og tala saman og taka ákvarðanir um ýmis
mál. Leið þingmanna sem komu frá Norður
og Austurlandi var meðfram Skjaldbreiði.
Drag er lægð í landslagi.
Dulítill er dálítill.
Dyngja, orðið er notað um fjöll sem myndast
á sama hátt og Skjaldbreiður. Orðið þýðir
líka ýmislegt annað t.d. hrúga eða haugur. Álftarhreiður
er líka kallað dyngja en hreiðrið er stór hrúga
af alls kyns stráum. Í gömlu, íslensku torfbæjunum
voru herbergi, þar sem konur sváfu eða unnu, stundum kallaðar
dyngjur.
Gígur er djúpt op í jörðina sem
bráðið grjót, kallað kvika, kemur upp úr
í eldgosum.
Glíma er gömul, íslensk íþrótt.
Þá reyna tveir vopnlausir menn að fella hvorn annan með
ákveðnum aðferðum eða brögðum.
Háleistur er sokkur sem nær upp að hné.
Hringbrot sérstakur leikur stundum eins og hálfgerður
dans.
Hyggja að mörgu er að gá að mörgu
eða athuga margt.
Íslendingasögur eru sögur sem voru skrifaðar
á Íslandi fyrir mörg hundruð árum. Þær
segja mest frá Íslendingum fyrstu 200 árin eftir að
þeir fluttu til Íslands.
Jafnt og þétt, fjallið hækkar jafnt og
þétt þýðir að fjallið hækkar hvergi
mikið í einu heldur alls staðar smátt og smátt.
Þegar gengið er á Skjaldbreið þá er alltaf
gengið svolítið upp í móti, lengi, lengi en hvergi
klifrað.
Landnámsmenn voru þeir menn sem fyrstir komu til
Íslands og settust að.
Náttúrufræðingur er sá sem hefur
verið í háskóla og lært þar sérstaklega
um náttúruna.
Niðursokkinn er sá sem er að hugsa djúpt
um eitthvað og gleymir þá oftast öllu öðru
í kringum sig.
Rannsaka, þegar eitthvað er rannsakað er það
skoðað mjög vel. Oft er verið að reyna að uppgötva
eitthvað nýtt um það sem verið er að skoða
til að hægt sé að segja frá því eða
skrifa um það.
Skáld eru menn og konur sem búa til ljóð
eða kvæði.
Skjaldbreiður þýðir líklega breiður
eða stór skjöldur. Sumum finnst að orðið eigi
að vera kvenkyn að það eigi að segja hún Skjaldbreiður.
Jónas Hallgrímsson notaði orðið í karlkyni,
hann Skjaldbreiður, og þess vegna er það líka gert
í bókinni um fjöllin.
Stúdent er nemandi sem hefur lokið stúdentsprófi
eða sem er að læra í háskóla.
Tröll eru stór og klunnaleg og sögð búa
í hellum í fjöllum. Margar þjóðsögur
eru um tröll. Þau eru oftast talin ill. Grýla er frægasta
tröllskessa á Íslandi.
(© 2004 Sigrún Helgadóttir)