Suðaustan við Mýrdalsjökul er Mýrdalssandur, stór, svartur eyðisandur. Sandurinn hefur myndast í jökulhlaupum, ekki síst þeim sem hafa komið í Kötlugosum. Jökulhlaup flæða langt út fyrir venjulega árfarvegi jökulánna. Þau geta flætt yfir gróið land, tún og bæi, vegi og önnur mannvirki. Þegar hlaupin réna er landið þakið leðju sem verður að sandi þegar hún þornar. Hlaupin flæða alveg til hafs og flytja með sér bergmylsnu undan jöklinum. Í sjónum fellur mylsnan til botns svo að hann grynnist og land getur myndast þar sem áður var fjara eða sjór. Á Mýrdalssandi er klettahöfði sem heitir Hjörleifshöfði. Sagt er að Hjörleifur, bróðir Ingólfs Arnarsonar landnámsmanns, hafi siglt skipi sínu að höfðanum. Nú er mikil sandfjara á milli höfðans og sjávar. Ofarlega í sandinum er höfði sem heitir Hafursey. Það örnefni og sögnin um Hjörleif gefa til kynna hvernig land var þarna þegar fólk kom fyrst til Íslands. Hvernig ætli það hafi verið?

Með tímanum hefur fólk lært að byggja ekki bæi þar sem hætta er á jökulhlaupum. En fólk þarf að fara um landið. Vegurinn um Suðurland fer yfir Mýrdalssand. Núna bruna flestir í bíl hratt yfir sandinn. Áður fyrr, þegar fólk fór þessa leið gangandi eða ríðandi, gat ferðin tekið langan tíma. Þá voru menn oft hræddir um að Katla færi að gjósa á meðan þeir væru á leiðinni og að þeir lentu í flóði. Austan við Mýrdalssand er Laufskálavarða. Þar eru margar litlar vörður á grjótmel. Sá siður var að hver sem færi í fyrsta skipti vestur yfir Mýrdalssand hlæði vörðu sér til fararheilla áður en hann legði á sandinn. Í nágrenninu er eyðibýlið Laufskálar. Nú eru melar og sandur á þessum stað. Hvernig ætli landið hafi verið þegar bær þar fékk nafnið Laufskálar? Hvað hefur breyst? Hvers vegna?

Ef flóð var á sandinum varð fólk að fara norðan við Mýrdalsjökul. Það var kallað að fara að fjallabaki. Sú leið var miklu lengri en að fara yfir Mýrdalssand. Nú sækjast ferðamenn eftir að fara Fjallabaksveg. Þar er mjög fallegt og margt að sjá og skoða.

© 2011 Sigrún Helgadóttir

Loka glugga