Jules Verne var franskur rithöfundur. Hann fæddist árið 1828 og dó 1905. Hann skrifaði margar vísindaskáldsögur. Þær sögur gerast gjarnan í framtíðinni þegar tæknin er orðin meiri en í nútíma. Margar vísindaskáldsögur okkar tíma gerast t.d. úti í geimnum. Jules Verne skrifaði um ýmislegt sem þá þótti fráleitt en við þekkjum vel nú á dögum, svo sem kafbáta, sjónvörp og geimferðir. Hann skrifaði margar bækur en sú frægasta þeirra er Umhverfis jörðina á 80 dögum sem kom út árið 1873. Nokkru fyrr kom út sagan Leyndardómar Snæfellsjökuls. Báðar þessar bækur hans, og nokkrar aðrar, hafa verið þýddar á íslensku. Gerðar hafa verið kvikmyndir eftir mörgum af sögum hans.

Í sögunni Leyndardómar Snæfellsjökuls segir af ungum Englendingi, þýskum prófessor og íslenskum fylgdarmanni þeirra. Þeir fara niður um gíginn á Snæfellsjökli. Ofan í jörðinni lenda þeir í alls kyns fáránlegum ævintýrum en komast loks aftur upp á yfirborðið í gegnum eldgíg á Ítalíu. Þegar gerð var bandarísk kvikmynd eftir þessari sögu lék íslenskur maður, Pétur Rögnvaldsson, eitt aðahlutverkið og sagði nokkrar setningar á íslensku.

(© 2004 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga