Frá Dyrfjöllum og suður með landinu er samfellt fjallaland. Há fjöll og á milli þeirra djúpir dalir og firðir. Stundum er þessu landi líkt við risastóra og þykka greiðu. Þetta er eitt af þeim svæðum þar sem land er elst á Íslandi, 10–15 milljón ára gamalt. Uppruni fjallanna er á gosbeltinu. Þaðan hafa þau færst hægt og hægt, um einn sentímetra á ári. Um leið hafa bæst ofan á þau lag eftir lag, hraunlög, aska, jarðvegur, sandur, möl. Jöklar hafa myndast ofan á þeim og þjappað jarðlögunum niður. Jöklar hafa bráðnað og grafið sig niður í þau. Vatn hefur runnið um fjöllin og skorið sig niður í gil og dali. Eftir standa fjöllin, há og skörðótt. Á þessu svæði eru líklega meira en 140 tindar sem eru meira en 1000 metrar yfir sjó.

Í Austfjarðafjöllum er algengt að finna óvenju fallega og litskrúðuga steina. Margir þeirra hafa myndast á löngum tíma í holum í berginu. (Sjá um steina og holufyllingar í Komdu og skoðaðu umhverfið.)

Lífríkið, gróður og dýralíf, á Austurlandi er að mörgu leyti sérstakt. Þar vaxa nokkrar tegundir plantna sem eru sjaldgæfar eða finnast varla annars staðar. Þetta eru til dæmis bláklukka, gullsteinbrjótur og klettafrú. Sama á við um nokkrar tegundir dýra. Flest eru þau smá eins og sniglar. Stærstu, villtu landspendýrin á Íslandi, hreindýrin, halda sig bara á Austurlandi. Á milli áranna 1770 og 1790 voru hreindýr flutt til Íslands frá Noregi. Þeim var sleppt á nokkrum stöðum á landinu en eru nú alls staðar horfin nema á Austurlandi. Þar halda þau sig alveg frá sjó upp að jökli.

(© 2004 Sigrún Helgadóttir)

Loka glugga