MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 6 | Formáli 2. útgáfu Lesfimiprófið hefur nú verið í notkun í sex ár og segja má að það hafi allt frá upphafi hlotið frábærar viðtökur hjá skólum. Frá árinu 2018 hafa að meðaltali 90% grunnskólanemenda þreytt prófið í maí enda veitir það mikilvægar upplýsingar um stöðu þessarar mikilvægu færni sem lesfimin er en hún er ein af mikilvægustu stoðum lesskilnings. Allt frá því að prófið fór í loftið hafa sérfræðingar Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu fylgst vel með notkun og virkni þess. Öll stöðluð próf þarf að endurskoða reglulega og þróa í samræmi við nýjustu þekkingu sem verður til á hverjum tíma en upplýsingar og ábendingar frá notendum eru ekki síður mikilvægar þegar kemur að því að þróa og endurbæta mælitæki. Það er því tilefni til að þakka öllum notendum prófsins sérstaklega fyrir ábendingar og hagnýtar upplýsingar sem verða til þess að gera lesfimiprófið að enn betra verkfæri til að meta lestrarfærni nemenda í íslenskum skólum. Endurskoðunin, sem nú fer fram, mun fela í sér nokkur skref svo að breytingarnar hafi sem minnst áhrif á notendur. Í þessari fyrstu umferð er próftextunum fækkað úr tíu í sex. Gerð er nánari grein fyrir nýju fyrirkomulagi í 3. kafla handbókarinnar. Að ári er stefnt að því að gefa út ný lesfimiviðmið sem byggja á þeim gögnum sem hafa safnast saman á liðnum árum en jafnframt að gefa út nýjar birtingarmyndir sem gefa nákvæmari mynd af frammistöðu nemenda og auðvelda túlkun á niðurstöðum. Eins og svo oft áður má reikna með því að miðstöðin muni enn og aftur leita eftir aðstoð og fá sýn notenda prófsins á fyrirhugaðar breytingar. Freyja Birgisdóttir Sviðsstjóri matssviðs hjá Miðstöð menntunar og skólaþjónustu
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=