Handbók um notkun lesfimi- og stuðningsprófa Lesferils

MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 36 | Eftir að nemandinn hefur náð góðum tökum á lestri og lesfimin orðin öflug þarf að styðja kröfuna um heimalestur með góðum rökum og tryggja að hún hafi gildi fyrir nemandann, að hann hafi val, gott aðgengi að fjölbreyttum bókakosti og möguleika á úrvinnslu (sjá t.d. Yndislestur á Læsisvefnum). Einnig er mikilvægt að tengja kröfuna um heimalestur við lestur í námsgreinum en texti námsgreina getur oft verið flókinn og innihaldið mörg ný orð og greinabundin hugtök sem þarf að kafa í. Í þessu samhengi kemur þjálfun í beitingu lesskilningsaðferða að gagni sem viðfangsefni í heimalestri. Á Læsisvefnum er að finna efnið Spurt og svarað um lestrarþjálfun og Lesfimiþjálfun nemenda á mið- og unglingastigi en þar eru ýmsar gagnlegar ábendingar fyrir bæði kennara og foreldra sem geta nýst við lestrarþjálfun eða heimalestur. 6.2.4. Læsisvefurinn – verkfærakista kennara Læsisvefnum er ætlað að vera verkfærakista kennara og hefur hann að geyma upplýsingar, aðferðir og bjargir sem nýtast kennurum við skipulag og val á viðfangsefnum í læsiskennslu, t.d. í kjölfar mats á lestri. Aðferðirnar, sem valdar hafa verið inn á vefinn, eru nær allar byggðar á niðurstöðum rannsókna og getur notkun þeirra lagt grunninn að fjölbreyttri og árangursríkri læsiskennslu á öllum stigum grunnskólans. Efnið á vefnum er flokkað í samræmi við meginþætti læsis og er ætlað að auðvelda kennurum að finna það sem þeir leita að hverju sinni. Við framsetningu aðferða á vefnum er leitast við að setja þær í skýrt samhengi og útskýra vel í hverju gildi aðferðarinnar liggur. Einnig eru sett fram þau markmið sem aðferðin getur uppfyllt, gögn sem þarf við framkvæmdina sem lýst er í skrefum og í mörgum tilvikum fylgja bjargir í formi veggspjalda eða annars sem hægt er að nota á meðan á innlögn og þjálfun stendur. Margar aðferðanna eru einfaldar í framkvæmd en hafa þarf í huga að engin aðferð er svo einföld að það þurfi ekki að beita henni nokkrum sinnum til að bæði nemendur og kennari nái tökum á henni og full áhrif hennar komi fram. Einnig er mikilvægt að hafa í huga að beiting aðferðar þarf að eiga sér stað á réttum tímapunkti í lestrarnámi til að vera árangursrík (Hattie, 2009). Með því að kynna sér og nota nýjar aðferðir markvisst í kennslu stækkar verkfærakistan smám saman og kennarinn verður sífellt færari um að koma betur til móts við þarfir nemenda sinna í lestrarnámi þeirra. 6.2.5. Samstarf við foreldra vegna lestrarnáms Það er samstarfsverkefni heimilis og skóla að gera nemendur læsa og tryggja að lestrarnám barna verði farsælt. Það er best gert með öflugu samstarfi allt frá upphafi formlegrar skólagöngu þar sem væntingar, hlutverk og ábyrgð beggja aðila er skýr en skólinn, sem er skipaður fagfólki með þekkingu á lestrarkennslu, leiðir alltaf samstarfið og leggur línurnar. Þannig bera foreldrar/forsjáraðilar ábyrgð á almennu læsisuppeldi og þjálfun á meðan hún þarf að fara fram en skólinn á því að kenna nemendum aðferðir og leiðir sem auka líkurnar á því að þeir öðlist næga lestrarfærni til að geta nýtt sér lestur til náms. Á Íslandi hefur orðið til sterk hefð fyrir því að foreldrar/forsjáraðilar taki að sér að sinna heimalestri eða lestrarþjálfun barna, einkum á fyrstu stigum lestrarnáms, og því er mikilvægt að samtal eigi sér stað milli heimils og skóla um viðfangsefnið. Skólar þurfa að vera leiðandi í því

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=