MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 33 | 6. Lestrarkennslan 6.1. Læsisstefnan Hægt er að ræða um ytra skipulag, sem lýtur að heildarskipulagi læsiskennslu í skólanum sem miðar að því að útskrifa nemendur með góða lestrarfærni og vel læsa á næsta skólastig, og innra skipulag eða skipulag kennslu inni í bekk sem tekur mið af stöðu bekkjar og viðfangsefnum í lestrarkennslu hverju sinni eða á milli þess sem mat fer fram. Ytra skipulag lestrarkennslu er gjarnan tíundað í læsisstefnu skóla og ætti að endurspegla góðan skilning á þróun lestrarfærni og læsis þar sem stigvaxandi þyngd viðfangsefna á hverju stigi er í takt við kröfur sem gerðar eru til lestrarkunnáttu í námi. Gott ytra skipulag eða góð læsisstefna sem endurspeglar nauðsynlega stígandi og samfellu í lestrarkennslu getur verið kennurum leiðarljós varðandi markmið og viðfangsefni í lestrarkennslu á hverju stigi. Hún getur einnig veitt nemendum og foreldrum góða heildarmynd af því hvað góð lestrarkunnátta og gott læsi felur í sér eða hvers konar hæfni nemandinn á að búa yfir við lok grunnskóla. Í Skólagátt geta stjórnendur séð meðaltöl allra árganga sinna og borið t.d. saman við landsmeðaltöl. Þetta eru dýrmætar upplýsingar sem veita skólum tækifæri til að rýna í eigin starfshætti varðandi fyrirkomulag lestrarkennslu. Mikilvægt er að stjórnendur og kennarar rýni saman í niðurstöður undir formerkjum lærdómssamfélagsins og deili hugmyndum, aðferðum og ábyrgð á frammistöðu allra nemenda skólans. Rýnin getur dregið fram nauðsyn þess að gera ákveðnar breytingar sem þurfa að rata inn í læsisstefnu skólans við endurskoðun hennar en mikilvægt er að stefnan sé lifandi plagg sem endurspeglar áherslur hverju sinni og sé í raun hið fasta leikskipulag sem allt starfsfólk skóla sameinast um að fylgja vel eftir í þágu nemenda. 6.2. Skipulag lestrarkennslu og lestrarstuðnings á skólavísu Söfnun gagna, greining og rýni í niðurstöður lesfimi- og stuðningsprófanna gera skólum kleift að kortleggja heildarstöðu lestrar innan alls skólans. Við greininguna fást einnig niðurstöður sem leggja má m.a. til grundvallar skipulagningar lestrarkennslu inni í bekk eða hjá árgangi, skipulagningar stoðþjónustu (lestrarstuðnings), forgangsröðunar fjármagns og mannauðs og áherslna í starfsþróunaráætlun skóla. Skipulagið sem birtist í töflu 7 er byggt á framsetningu lesfimiviðmiðanna. Það skýrir stöðu nemenda og hlutverk og ábyrgð skóla og heimilis varðandi kennslu, þjálfun og eftirfylgni fram að næsta lesfimimati. Með því að setja inn fjölda og hlutfall nemenda á hverju viðmiðsbili og taka niðurstöður saman fyrir bekk/árgang/skóla er hægt að átta sig á og fylgjast með þróun stöðunnar á milli mælinga og ára innan skólans. Þannig fæst t.d. góð hugmynd varðandi það hvert umfang lestrarstuðnings þarf að vera og hægt að forgangsraða bjargráðum í samræmi við það.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=