Handbók um notkun lesfimi- og stuðningsprófa Lesferils

MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 28 | 5.2.2. Staða bekkjar við upphaf skólaárs Á þessu stigi í lestrarnámi hefur meðalnemandinn náð góðum tökum á hljóðaaðferðinni, sjónrænn orðaforði fer hratt vaxandi og forsendur til aukinnar lesfimi komnar hjá langflestum. Þetta endurspeglast í viðmiðum 3. og 4. bekkjar en stökkið er hvergi meira en á milli viðmiða þessara árganga eða 25 o. á m. Á fyrri stigum lestrarnáms getur lítill lestur yfir sumartímann leitt af sér tímabundna afturför en nemendur með lestrarerfiðleika eru sérstaklega viðkvæmir fyrir skorti á þjálfun yfir sumartímann og getur farið nokkuð aftur ef engin þjálfun eða upprifjun er til staðar (Cahill, Horvath, McGill-Franzen og Allington, 2013). Niðurstöður í september geta því verið litaðar af skorti á lestrarþjálfun yfir sumarið og getur það tekið nemendur nokkurn tíma að ná upp fyrri færni. Eins og áður segir þarf að hafa í huga að viðmiðin gefa til kynna æskilega færni í maí og þarf að skoða frammistöðu nemenda á september- og janúarmati í ljósi þess. Samkvæmt gögnum úr Skólagátt fyrir september 2020 er meðallestrarhraði nemenda á landsvísu við upphaf 3. bekkjar 66 o. á m. en í þessum hópi er meðalhraðinn 48 o. á m. og hann því nokkuð undir landsmeðaltali. Fyrir því kunna að vera ýmsar ástæður, s.s. hærra hlutfall nemenda með undirliggjandi vanda, hlutfall nemenda með annað móðurmál, gæði lestrarkennslu, svigrúm skóla til lestrarstuðnings vegna smæðar eða skortur á fagmenntuðum kennurum til að sinna stuðningi. Mikill munur á færni nemenda í sama bekk eða árgangi geta falið í sér áskoranir fyrir kennara og skóla en með skýru skipulagi, þar sem lestrarkennslan er vönduð, fær gott svigrúm og öflug stoðþjónusta er fyrir hendi, er hægt að ná góðum árangri. 5.2.3. Skjalið fyllt út Fremst í skjalinu, á eftir nöfnum nemenda, er að finna lesfimiviðmið 1 og 2 fyrir 3. bekk og í dálkinn þar á eftir skráir kennarinn niður lesin orð á mínútu á lesfimiprófi. Niðurstöður eru litaðar í samræmi við það viðmiðsbil sem nemandinn lendir á og sett er fram í gagnatöflunni í Skólagátt (sjá mynd 5 í kafla 3.6.). Hafa þarf í huga að staða nemenda innan viðmiðabils getur verið mjög ólík, sérstaklega nemenda undir viðmiði 1, og í þessu dæmi hlaupa t.d. lesin orð á mínútu hjá nemendum frá níu og upp í 52 orð. Því verður að forðast að gera ráð fyrir því að allir „rauðir nemendur“ þurfi sambærilega kennslu og stuðning. Rýna þarf vel í frammistöðu þeirra á stuðningsprófum og skipuleggja næstu skref í samræmi við heildarmyndina sem prófin gefa, sem og aðrar upplýsingar sem kennarinn hefur um dæmigerða færni hvers nemanda. Nemendur undir viðmiði 1 geta þurft sérsniðna lausn til skemmri eða lengri tíma og/eða kennslu í fámennum hópi undir leiðsögn sérfræðings en geta jafnframt haft ávinning af því að sitja skipulagða lestrarkennslu inni í bekk. Við skráningu á niðurstöðum stuðningsprófa skrá kennarar umsögnina sem fylgir þeirri mælitölu sem nemendur fá á hvoru prófi fyrir sig í viðeigandi dálka (sjá kafla 4.4. um mælitölur og lýsingar) en geta einnig skráð mælitöluna sjálfa þegar þeir hafa töfluna á hraðbergi. Dálkarnir Lesfimiþjálfun og Stuðningur eru ætlaðir til að auðvelda kennurum að átta sig á því hvaða nemendur það eru sem þurfa annars vegar á tímabundinni aukalesfimiþjálfun að halda og hins vegar meiri stuðningi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=