Handbók um notkun lesfimi- og stuðningsprófa Lesferils

MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 24 | 5. Notkun prófanna í skólastarfi Með tilkomu lesfimi- og stuðningsprófa Lesferils hafa skapast forsendur til að meta árangur af lestrarkennslu, fá samanburðarhæfar upplýsingar um stöðu nemenda og vísbendingar um veikleika í lestrarferli þeirra. Séu niðurstöður notaðar á markvissan hátt geta þær lagt grunninn að árangursríkri lestrarkennslu sem skilar öllum nemendum nauðsynlegri og góðri lestrarfærni. Sameiginleg rýni skólastjórnenda og kennara í niðurstöður leiðir til mikilvægs samtals um gæði lestrarkennslu og getur átt þátt í að efla og bæta hana í þágu allra nemenda. Það er mikilvægt fyrir skóla að hafa í huga að með notkun matstækja skapast siðferðileg skylda til að bregðast við niðurstöðum með skýrum og afgerandi hætti. Þannig ber kennurum að læra vel á matstækin, þekkja hugsmíðina sem liggur að baki hverju prófi, að vanda framkvæmd og túlkun og vera vel í stakk búnir til að bregðast við niðurstöðum allra nemenda. Þannig verður til ákveðin hringrás sem í raun tekur ekki enda fyrr en allir nemendur hafa náð fullnægjandi árangri eða eins góðum og þeir hafa forsendur til. 5.1 Samspil lesfimi- og stuðningsprófanna Eins og áður segir er tilgangur stuðningsprófanna að fá betri upplýsingar um ástæður fyrir slöku gengi nemanda á lesfimiprófi en í töflunni hér á eftir er tillaga að því hvenær æskilegt er að leggja stuðningsprófin fyrir. Eðlilegt er að stuðningsprófin séu notuð oftar með ungum nemendum sem eru að ná tökum á lestri á meðan forsendur þeirra til lestrarnáms eru að skýrast en um leið og nemendur hafa náð tökum á grunnaðferðum lestrar og frammistaða á stuðningsprófum verður fullnægjandi minnkar þörfin fyrir notkun þeirra. Eins og áður hefur verið nefnt er viðmiðunarreglan sú að leggja á stuðningsprófin fyrir nemendur sem eru undir og rétt yfir viðmiði 1 á lesfimiprófi þar til viðunandi árangur næst eða skýring á slöku gengi í lestrarnámi liggur fyrir. Þetta á við um nemendur á öllum stigum grunnskólans því skortur á færni í grunnaðferðum lestrar kemur í veg fyrir að nemendur nái góðum tökum á lesfimi óháð aldri. Kennarar geta einnig lagt stuðningsprófin fyrir þyki þeim ástæða til að afla nýrra upplýsinga um stöðu nemenda sem eru t.d. rétt yfir viðmiði 1 eða til að fá nýjar upplýsingar í kjölfar íhlutunar um stöðu grunnaðferða í lestri hjá nemendum með greindan lestrarvanda. Mynd 9. Hringrás mats og kennslu.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=