MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 21 | 4.2. Orðleysulestur: Sjálf fyrirlögnin Í Skólagátt er að finna eftirfarandi upplýsingar um prófið: Próf í orðleysulestri er 40 atriða einstaklingspróf sem tekur 1-2 mínútur í fyrirlögn á hvern nemanda (sjálfur próftökutíminn er 1 mínúta). Lestur orðleysa er eitt besta mælitækið til að meta þekkingu nemanda á tengslum bókstafs og hljóðs sem er undirstaða umskráningar í lestri. Öryggi við beitingu hljóðaaðferðar er forsenda þess að nemandi geti byggt upp sjónrænan orðaforða og sjálfvirkur lestur orðmynda er forsenda góðrar lesfimi. 4.2.1. Prófgögn og fyrirmæli Prófblað nemenda og skráningarblað kennara er að finna í Skólagátt undir lista yfir nemendur sem skráðir eru í prófin. Önnur prófgögn eru skriffæri, tímamælir og upptökutæki ef taka á upp lesturinn. Það getur verið gott að taka lesturinn upp í tilviki nemenda með lestrarvanda því nánari greining á villum getur gefið nákvæmari hugmynd um það sem þarfnast þjálfunar. Við fyrirlögn byrjar kennarinn á því að fara yfir æfingaverkefnið sem er á bakhlið prófblaðs svo nemandi skilji í hverju verkefnið er fólgið en mikilvægt er að nemandinn viti nákvæmlega hvað hann á að gera áður en próffyrirlögn hefst. Því næst er nemendablaðið brotið í tvennt eftir miðjulínunni og kennarinn les fyrirmælin fyrir nemandann. Fyrirmælin er að finna í Skólagátt en til hægðarauka eru þau höfð með hér: „Í þessu verkefni átt þú að lesa orð eins hratt og vel og þú getur í eina mínútu. Þetta eru ekki venjuleg orð, þetta eru bullorð. Þú lest orðin eins og þau eru skrifuð. Ef þú ert ekki viss þá er betra að giska en segja ekki neitt. Orðin sem þú lest eru miserfið. Þau eru í röð á blaðinu og þú byrjar á því efsta og lest niður blaðið. Þegar því er lokið snýrðu blaðinu við og heldur áfram að lesa þar til ég segi þér að stoppa. Gott er að láta fingur fylgja orðunum þegar þú lest niður blaðið. Skilur þú hvað þú átt að gera? Ertu tilbúin/n?“ Mikilvægt er að gefa nemendum svigrúm til að svara spurningunum til að tryggja að þeir skilji fyrirmælin vel og leysi prófið á réttan hátt. 4.2.2. Skráning á niðurstöðum fyrir orðleysulestur Í Skólagáttinni er að finna upplýsingar um skráningu á niðurstöðum nemenda á lestri orðleysa: Próftími er hámark 1 mínúta. Tími nemandans er skráður neðst á skráningarblað kennara. Merkt er við þau orð sem nemandi las rangt ef einhver eru. Öll frávik frá réttri og nákvæmri umskráningu teljast sem villa. Færið niðurstöður af skráningarblaðinu inn á viðeigandi innsláttarsvæði í Skólagátt með því að smella á rangt lesin orð sem litast þá gul. Smella þarf tvisvar á síðasta orð sem lesið var sem litast þá rautt. Síðasta orðið telst ekki villa þótt orðið hafi verið rangt lesið. Ef allur orðalistinn er lesinn á undir 60 sekúndum þá er tvísmellt á síðasta orð listans og valið úr fellilista í hversu margar sekúndur nemandinn las.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=