MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 20 | 4. Stuðningsprófin: Orðleysulestur og sjónrænn orðaforði Tilgangur stuðningsprófanna er að veita nánari upplýsingar um stöðu grunnaðferða í lestri en markviss notkun stuðningsprófanna getur einnig veitt góðar vísbendingar um hvaða nemendur það eru sem e.t.v. glíma við undirliggjandi lestrarvanda. Markviss greining og notkun á niðurstöðum ætti að liggja til grundvallar skipulagi og viðfangsefnum lestrarkennslu eða lestrarstuðningi fyrir einstaka nemendur, bekk, árgang eða jafnvel skipulagi lestrarkennslu á skólavísu en með skýru skipulagi er hægt að tryggja flestum nemendum góða lestrarfærni og nýta bjargráð vel. 4.1. Framkvæmd við fyrirlögn stuðningsprófa 4.1.1. Hvaða nemendur eiga að taka stuðningsprófin? Viðmiðunarreglan er sú að leggja á stuðningsprófin fyrir nemendur sem eru undir og rétt yfir viðmiði 1 á lesfimiprófi þar til viðunandi árangur næst eða skýring á slakri frammistöðu liggur fyrir. Þetta á við um nemendur á öllum stigum grunnskólans því skortur á færni í grunnaðferðum lestrar kemur í veg fyrir að nemendur nái góðum tökum á lesfimi óháð aldri. Kennarar geta einnig lagt stuðningsprófin fyrir þyki þeim ástæða til að fá nýrri upplýsingar um stöðu nemenda í lestri, t.d. þegar nemandi hefur flutt sig á milli skóla, eða til að fá nýjar upplýsingar í kjölfar íhlutunar hjá nemendum með lestrargreiningu. 4.1.2. Hver á að leggja stuðningsprófin fyrir? Líkt og í tilviki lesfimiprófsins er það lestrarkennari nemandans sem leggur stuðningsprófin fyrir. Eins og áður segir eru þetta alla jafna umsjónarkennarar á yngsta og miðstigi en íslenskukennarar á unglingastigi. Sérkennari eða annar sérfræðingur annast svo mat á nemendum sem hann hefur umsjón með. Reikna má með því að þörfin fyrir að leggja stuðningsprófin fyrir sé meiri á fyrri stigum náms en meginreglan er sú að leggja stuðningsprófin fyrir til að fá skýringu á slöku gengi á lesfimiprófi hjá nemendum á öllum stigum. Í töflu 4 í kafla 5.1 er að finna upplýsingar varðandi fyrirlögn stuðningsprófanna og annarra matstækja sem geta gefið upplýsingar um gengi nemenda í lestri. 4.1.3. Undirbúningur nemenda undir próf Stuðningsprófin krefjast ekki sérstaks undirbúnings af hálfu nemenda. Það er gott að tilkynna prófdag með fyrirvara svo eldri nemendur, sem oftast lesa í hljóði, geti æft raddlestur en hann getur orðið stirður ef nemendur lesa lítið upphátt. 4.1.4. Prófaðstæður Þar sem kennari verður að geta heyrt lestur nemandans, og til að lágmarka áreiti á meðan nemandi leysir prófið, þarf það að fara fram þar sem næði er gott og lítið um önnur áreiti í umhverfinu. Nemendur geta fundið fyrir streitu rétt áður en þeir leysa prófið og ættu kennarar að gefa sér örlítinn tíma til að hjálpa nemanda að koma ró á huga sinn áður en hann leysir prófið.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=