MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 13 | 3.5.4. Undirbúningur nemenda undir próf Prófið krefst ekki sérstaks undirbúnings af hálfu nemenda. Það er gott að tilkynna prófdag með fyrirvara svo eldri nemendur, sem lesa oftast í hljóði, geti æft raddlestur en hann getur orðið stirður ef nemendur lesa lítið upphátt. 3.5.5. Prófaðstæður Þar sem kennari verður að geta heyrt lestur nemandans, og til að lágmarka áreiti á meðan nemandi leysir prófið, þarf það að fara fram þar sem næði er gott og lítið um önnur áreiti í umhverfinu. Nemandi getur fundið fyrir streitu rétt áður en hann leysir prófið og ætti kennari að gefa sér örlítinn tíma til að hjálpa honum að koma ró á huga sinn áður en hann leysir prófið. 3.5.6. Lesfimiprófið: Sjálf fyrirlögnin Í Skólagátt er að finna eftirfarandi upplýsingar um prófið: Lesfimipróf Lesferils eru stöðupróf þar sem metnir eru tveir þættir í lestri nemandans; sjálfvirkni lestrar og lestrarnákvæmni. Hér er um að ræða einstaklingspróf sem taka tvær mínútur í fyrirlögn. Góð lesfimi stuðlar að auknum lesskilningi þar sem hún gefur nemendum færi á að beina aukinni athygli að innihaldi textans. Ef nemandi nær ekki góðum tökum á lesfimi verður lestur ónákvæmur og tafsamur. Lesfimi er hæfileiki sem þarf að þjálfa og viðhalda eins og hverri annarri færni. Minnt er á að til að fá heildarmynd af stöðu nemenda í lesfimi þarf einnig að meta aðra þætti hennar með matsramma fyrir lesfimi. Í leiðbeiningum með rammanum má finna nánari útskýringar á notkun hans og mikilvægi þess að meta alla þætti lesfiminnar. 3.5.7. Prófgögn og fyrirmæli Prófblað nemenda og skráningarblað kennara er að finna í Skólagátt undir lista yfir nemendur sem skráðir eru í prófin. Önnur prófgögn eru skriffæri, tímamælir og upptökutæki ef taka á upp lesturinn. Það getur verið gott að taka lesturinn upp í tilviki nemenda með lestrarvanda því nánari greining á villum getur gefið nákvæmari hugmynd um það sem þarfnast þjálfunar. Fyrirmæli til nemenda er að finna í Skólagátt og prófeintaki kennara en til hægðarauka eru þau einnig höfð með hér: „Hér sérðu textablað, þú átt að lesa þennan texta eins hratt og vel og þú getur í tvær mínútur. Ég mun taka tímann á meðan þú lest. Skilur þú hvað þú átt að gera? Ertu tilbúin/n?“ Mikilvægt er að gefa nemendum svigrúm til að svara spurningunum til að tryggja að þeir skilji fyrirmælin vel og leysi prófið á réttan hátt.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=