MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 12 | 3.5.2. Á að leggja lesfimiprófið fyrir alla nemendur? Lesfimiprófið má leggja fyrir alla nemendur sem til þess hafa forsendur en í næsta kafla er fjallað um mat á lesfimi hjá nemendum með lestrarerfiðleika. Í tilviki nemenda sem náð hafa góðum tökum á lesfimi og eru komnir á efri stig í grunnskóla geta skólar mótað sér sjálfstæða stefnu varðandi það hverjir fara í lesfimipróf og hverjir ekki en færa má góð rök fyrir því að óþarft sé að prófa nemendur sem búa þegar yfir góðri lesfimi og hafa náð æskilegu viðmiði. Vilji skólar hins vegar safna gögnum til að skoða hjá sér árangur af kennslu milli ára má leggja prófin fyrir alla þar sem það er ekki mjög tímafrekt og unglingar oft áhugasamir um frammistöðu sína á lesfimiprófi. 3.5.3. Mat á lesfimi hjá nemendum með lestrarerfiðleika eða önnur frávik Einstaka nemendur eiga í töluverðum erfiðleikum með að ná tökum á lestri vegna lestrarvanda eða þroskafrávika og fyrir þessa nemendur getur það reynst mikil raun að þreyta lesfimipróf árgangs síns. Þar sem prófútgáfur eru staðlaðar fyrir ákveðinn aldur á ekki að leggja fyrir þessa nemendur próf yngri árganga því þannig fæst ekki marktækur samanburður við jafnaldra og niðurstöður gefa ekki rétta mynd af færni nemanda. Ef kennari/skóli telur að ekki fáist nægar upplýsingar um stöðu lesfimi nemanda með því að leggja fyrir hann lesfimipróf Lesferils þar sem það er of þungt þarf að ræða bæði við nemandann og foreldra um að leggja annars konar próf fyrir. Hafa þarf í huga mikilvægi þess að leggja fyrir próf sem reyni ekki um of á nemandann, gefi rétta mynd af stöðu hans og góðar upplýsingar um möguleg næstu skref í kennslu og þjálfun. Jafnframt þarf að ræða með hvaða hætti niðurstöður verða settar fram og hvernig framfarir verða metnar. Í slíkum tilvikum er lagt til að notuð séu önnur úttalin lesfimipróf til að meta framfarir (t.d. próf sem skólinn á eða Leið til læsis lesfimiprófin sem finna má á læstu svæði kennara á heimasíðu Miðstöðvar menntunar og skólaþjónustu). Velja ætti texta sem reynir hæfilega á nemandann og gefur góða mynd af stöðu hans í lesfimi. Einnig er mikilvægt að meta aðra þætti lesfiminnar ef mögulegt er með því að nota matsrammann fyrir lesfimi til að fá heildstæða mynd af stöðu nemandans. Líkt og í tilviki nemenda sem leysa staðlaða prófið er sami textinn lagður fyrir þrisvar yfir skólaárið en með því að leggja sama texta fyrir er hægt að fá góða tilfinningu fyrir framförum. Í kjölfarið geta nemendur svo sett sér persónubundin, raunhæf markmið með aðstoð kennara. Niðurstöður úr öðrum prófum en stöðluðum prófum Lesferils er hvorki hægt að skrá í Skólagátt né bera saman við upplýsingar sem þar birtast, s.s. viðmið og meðaltal bekkjar. Það er hins vegar auðvelt að útbúa yfirlit yfir feril nemandans í Excel enda skiptir það máli bæði fyrir hann og foreldra að niðurstaðan sé sett fram í skýru samhengi og með raunhæfum en hvetjandi hætti. Það er mjög mikilvægt að nemandi missi aldrei trú á eigin getu og viðhaldi jákvæðu hugarfari til íhlutunar og þjálfunar. Framfarir eru mjög einstaklingsbundnar en nemandi sem fær markvissa íhlutun og þjálfun er í stöðugri framför og hrósa þarf fyrir hvert lítið skref sem tekið er í rétta átt.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=