Handbók um notkun lesfimi- og stuðningsprófa Lesferils

MIÐSTÖÐ MENNTUNAR OG SKÓLAÞJÓNUSTU 2024 | 11 | 3.3. Matsrammi fyrir lesfimi Lesfimiprófið í Lesferli metur sjálfvirkni og nákvæmni við lestur. Í leiðbeiningum um framkvæmd eru fyrirmælin til nemenda þegar prófið er lagt fyrir „Lestu eins hratt og vel og þú getur“. Orðið „vel“ vísar hér til lestrarnákvæmni þar sem hún, ásamt lesnum orðum á mínútu, liggur til grundvallar útreikningum á frammistöðu nemenda. Upplýsingar um sjálfvirkni umskráningar eru mjög mikilvægar en sjálfvirknin er ein af meginforsendum þess að lesari geti einbeitt sér að innihaldi texta og skilið hann. Sé skilgreiningin á lesfimi hins vegar höfð í huga er ljóst að lesfimiprófið metur aðeins tvo meginþætti hennar en til að fá góða hugmynd af heildarstöðunni þurfa kennarar einnig að nota matsramma fyrir lesfimi sem býður upp á mat á hrynrænum þáttum til viðbótar. Saman veita lesfimiprófið og matsramminn góðar upplýsingar en notkun rammans býður jafnframt upp á útvíkkun í lestrarkennslu og þjálfun og getur gert hvort tveggja fjölbreytt og áhugavert. Matsrammann má finna á Læsisvefnum ásamt leiðbeiningum. 3.4. Tengsl lesfimi og lesskilnings Setning lesfimiviðmiða og mælingar á sjálfvirkni og nákvæmni lestrar hafa hlotið nokkra gagnrýni og telja ýmsir að hvort tveggja leiði til ofuráherslu á lestrarhraða í lestrarkennslu í stað þess að athyglinni sé fremur beint t.d. að því að efla lesskilning nemenda eða áhugahvötina. Ef mikill leshraði er eina markmið lestrarkennslu og eini þáttur lestrar sem metinn er þá er þetta réttmæt gagnrýni því þessi nálgun á lestur og lestrarkennslu endurspeglar of þröngan skilning á því hvað lestur felur í sér og hver tilgangur hans er (Cartwright og Duke, 2019; Guðbjörg R. Þórisdóttir, 2021). Nákvæmur, áreynslulaus og sjálfvirkur lestur, þar sem lesarinn er því sem næst ómeðvitaður um lestrarferlið sem fer fram í huga hans, er hins vegar ein mikilvægasta forsenda þess að hann geti einbeitt sér að innihaldi textans og skilið hann (LaBerge og Samuels, 1974). Góð lestrarfærni er einnig meginforsenda þess að lesarar geti haft ánægju af lestri. Það er því mikilvægt að fylgjast vel með þróun lesfimi hjá nemendum því hún er ein af meginstoðum læsis því sé hún ekki nægileg getur það sett hömlur á möguleika nemenda til að komast yfir lesefni, nýta sér lestur á árangursríkan hátt í námi og lesa sér til yndisauka. 3.5. Framkvæmd við fyrirlögn lesfimiprófs 3.5.1. Hver á að leggja lesfimiprófið fyrir? Meginreglan er sú að kennari sem annast lestrarkennslu tiltekins nemanda á að leggja fyrir hann prófið. Þetta er mikilvægt þar sem lestrarkennarinn skipuleggur áherslur og viðfangsefni í lestrarnáminu og fylgist með framvindu þess frá degi til dags. Hann er því best í stakk búinn til að meta frammistöðu og túlka niðurstöður þar sem hann hefur reynslu af vinnu með nemandanum og getur t.d. metið hvort próflausn sé dæmigerð fyrir færni nemanda eða ekki. Í flestum tilvikum eru þetta umsjónarkennarar á yngsta og miðstigi eða kennarar sem annast lestrarstuðning nemenda sem glíma við lestrarvanda og geta verið rétt yfir og undir viðmiði 1. Þar sem lestrarkennsla fellur undir íslensku eru það íslenskukennarar á unglingastigi sem þurfa að huga að kennslu og stöðu nemenda í lesfimi en þar sem þeir kenna oft mörgum árgöngum þurfa fleiri að koma að fyrirlögn lesfimiprófsins á stiginu ef leggja á prófið fyrir alla nemendur. Þar er gott að hafa í huga að allir kennarar eru læsiskennarar og að auðvelt er að þjálfa kennara í að leggja prófið fyrir.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=