GraphoGame - handbók fyrir kennara

7 40776 | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2024 Hljóðgreining og rím Í GraphoGame er unnið með hljóðgreiningu og rím. Í rímæfingum eiga nemendur að finna orð á skjánum sem rímar við það sem þeir heyra. Þegar smellt er á orðin sem birtast á skjánum heyrast þau lesin. Hljóðgreiningarverkefnin eru tvenns konar. Annars vegar eru verkefni þar sem hlusta á eftir hljóðum og þá fá nemendur fyrirmæli um eftir hvaða hljóði á að hlusta og myndir birtast á skjánum. Þegar smellt er á myndirnar heyrast orð lesin. Nemandinn velur síðan myndina sem inniheldur hljóðið sem leitað er eftir. Hins vegar er um að ræða verkefni þar sem nemendur eiga að hlusta eftir fyrsta hljóði í orði og velja viðeigandi bókstaf. Hljóðtenging Þegar nemandinn er farinn að þekkja hljóð bókstafanna ætti hann að vera fær um að tengja hljóð saman í orð. Þegar nemandinn les orð tengir hann rithátt orðsins við framburð þess og eftir því sem hann les orð oftar því meiri líkur eru á að það festist í minni hans og að hann geti lesið orðið sjálfvirkt án þess að þurfa að hljóða sig í gegnum hvern bókstaf orðsins. Þegar orðið hefur fests í minni nemandans er það orðið hluti af sjónrænum orðaforða hans. Sporun – réttur stafdráttur Að æfa sig að spora og skrifa bókstafina styrkir enn frekar tengsl bókstafa og hljóða. Í GraphoGame er leturgerðin Skriftís notuð, í daglegu tali kölluð ítalíuskrift, sem er sama leturgerð og nemendum er kennd í íslenskum grunnskólum. Í sporunarverkefnum er upphafsstaður merktur með punkti og er mikilvægt að kennarar fylgi því vel eftir að nemendur dragi rétt til bókstafanna. Ritun Ákveðin samvirkni ríkir á milli lesturs og ritunar. Báðir þættirnir byggjast á lögmálum stafrófsins; ritun á skráningu en lestur á umskráningu. Kennsla í stafsetningu og æfingar þar að lútandi í yngstu bekkjum grunnskóla byggjast að miklu leyti á því að nemendur læri að nýta sér tengsl bókstafa og hljóða til að koma rituðu máli á blað. Þess vegna skiptir miklu máli að nemendur fái tækifæri til að æfa ritun samhliða lestrarþjálfun.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=