3 40776 | Miðstöð menntunar og skólaþjónustu 2024 Inngangur Lestrarforritið GraphoGame á rætur sínar að rekja til Finnlands. Hönnun þess byggist á rannsóknum sem gerðar voru í Háskólanum í Jyväskylä til að greina þætti sem hafa forspárgildi um dyslexíu. Forritið var fyrst gefið út í Finnlandi undir nafninu Ekapeli og voru gerðar fjölmargar rannsóknir til að meta árangur af notkun þess. Árið 2017 var fyrirtækið GraphoGame stofnað þar sem finnskt tæknifyrirtæki og Háskólinn í Jyväskylä gerðu með sér samstarfssamning um útgáfu og eftirfylgni við staðfæringu á önnur tungumál og rannsóknir þeim tengdar. Gerðar hafa verið yfir 100 rannsóknir víða um heim á áhrifum og árangri GraphoGame og er það nú mest rannsakaða menntatækniforrit í heiminum. Niðurstöður rannsókna sýna að GraphoGame getur hjálpað þeim sem eru að læra að lesa að tileinka sér grunnundirstöður lestrar á mun styttri tíma en án stuðnings frá forritinu og mest þeim hópi sem hefur af einhverjum ástæðum dregist aftur úr í lestri. Vorið 2023 hófst vinna við að staðfæra GraphoGame yfir á íslensku. Birgir Örn Birgisson og Vésteinn Hauksson hjá Billboard ehf. fóru af stað með verkefnið og höfðu umsjón með framkvæmd en Tryggvi Hjaltason sá um verkefnisstjórn. Billboard ehf. fjármagnaði alla vinnu við verkið. Staðfæring var í höndum Sigurlaugar Rúnar Brynleifsdóttur læsisfræðings og studdi Félag læsisfræðinga á Íslandi staðfæringuna dyggilega með faglegri ráðgjöf og yfirlestri. Ilmur Kristjánsdóttir leikkona og Þorvaldur Davíð Kristjánsson leikari ljáðu forritinu raddir sínar. Audioland sá um hljóðupptökur. Í byrjun árs 2024 var forritið tilbúið og í framhaldinu hófst vinna við undirbúning samanburðarrannsóknar sem fór fram í Kópavogi á tímabilinu 9. apríl–28. maí. Þátttakendur í rannsókninni voru 375 nemendur í 1. bekk í níu grunnskólum. Þeim var skipt í tvo hópa, annars vegar hóp sem spilaði GraphoGame og hins vegar samanburðarhóp sem spilaði ekki leikinn. Báðir hópar tóku próf í forritinu í upphafi og við lok rannsóknarinnar. Helstu niðurstöður hennar sýna að þátttakendur sem spiluðu GraphoGame lestrarleikinn í sjö vikur náðu við lok rannsóknar betri árangri á öllum þáttum en þátttakendur í samanburðarhópnum. Árangurinn var mestur í þáttum sem kanna þekkingu á tengslum bókstafa og hljóða og í ritun orða. Niðurstöður gefa til kynna að þeir þátttakendur sem stóðu verst í upphafi náðu mestum framförum á milli prófa.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=