3 Til kennarans Í kennsluleiðbeiningum er yfirlit yfir hvernig vinna má með kennsluefnið Yes we can 5. Námsefnið er ólíkt fyrri bókum í flokknum að því leyti að nemendur fá nú bæði nemendabók og verkefnabók. Nemendur lesa texta sem eru fjölbreyttir hvað efnistök varðar, lengd og erfiðleikastig. Efninu er ætlað að hvetja nemendur áfram með fjölda verkefna, bæði munnlegum og skriflegum, sem leggja áherslu á aukningu orðaforða, mál og málnotkun og leiðsagnarmat sem veitir nemandanum leiðbeinandi upplýsingar um framvindu námsins og áframhaldandi markmið. Endurtekning og gagnsæ orð Tungumálafærni nemenda eykst með nýjum orðum og algengum setningamyndum og með endurtekningu þekktra orða og setninga. Skilningur á mæltu máli er grunnur tungumálanáms og grundvöllur lestrar og ritunar á nýju tungumáli. Nemendur þurfa að þekkja og skilja orðin áður en þeir geta tekið þau í notkun. Í Yes we can 5 er, athyglinni beint að endurtekningu orða og setningagerð. Aukin áhersla er á lestur og ritun út frá hæfniviðmiðum aðalnámskrár. Nemendur vinna markvisst með orðaforða út frá efnistökum og fá tækifæri til að tjá sig á ýmsan máta, bæði munnlega og skriflega. Um leið verða þeir meðvitaðri um hvaða hlustunar- og lestraraðferðum þeir geta beitt sér til ávinnings og reglulega eru þeir hvattir til að vera meðvitaðir um og taka afstöðu til eigin náms. Nærumhverfið og heimsmálin Í Yes we can 5 er lögð er áhersla á að veita nemendum menningarlega innsýn með völdum viðfangsefnum sem standa nemendum nærri og hafa auk þess alþjóðlega nálgun. Það er mikilvægt að vekja nemendur til umhugsunar um hvers vegna enska er alheimstungumál og hvers vegna er nytsamlegt að læra hana. Umfjöllun um aðrar þjóðir og kynni af þeim opna gáttir að fjölbreyttum menningarheimum, auka víðsýni, skilning, umburðarlyndi og virðingu gagnvart öðrum og ólíkum lifnaðarháttum og stuðla þar með að betri skilningi á eigin menningu. Málfræði Í Yes we can 5 vinna nemendur með málfræði út frá samhengi við texta og innihald kaflanna. Í upphafi hvers kafla eru málfræðiáherslur kaflans kynntar og farið yfir þær sameiginlega. Í kjölfarið vinna nemendur sjálfstætt að verkefnum bæði í verkefnabók og á vef. Með dæmum og verkefnum fá nemendur kynningu á þeim orðum og setningum sem þeir vinna síðan með í textum og viðfangsefnum kaflans. Í matshlutanum Let‘s go metur nemandinn svo hvort hann hefur náð að tileinka sér málfræðihluta kaflans. Námsmat Nemendur vinna markvisst að mati á eigin námi og eru hvattir til að íhuga og ræða hvernig þeir læra best og hvaða áskorunum þeir mæta í textum og verkefnum. Leiðsagnarmat fer fram samhliða náminu sjálfu og er hluti af vinnu nemenda með skapandi verkefnum, matssíðum, samvinnunámi, aukaverkefnum og samtölum innan bekkjarins. Námsefnið býður upp á skýrt samhengi milli náms, kennslu og námsmats og lagt er upp með að námsmatið sé leiðbeinandi, hvetjandi og upplýsandi. Staða nemandans er metin jafnóðum með samvinnu nemanda og kennara og út frá henni metið hvernig næstu skref í náminu skulu vera. Kennsluleiðbeiningar Kennsluleiðbeiningarnar gefa yfirsýn yfir innihald hvers kafla, þ. á m. orð og setningagerð, munnlegar áherslur og framburðarreglur. Efni kaflans er kynnt ásamt ábendingum og hugmyndum um hvernig vinna megi með hvert viðfangsefni fyrir sig. Skýrt yfirlit er yfir samhengi nemendabókar og verkefnabókar ásamt hlustunarefni og hugmyndum að heimanámi í ensku. Kennsluleiðbeiningunum er ætlað að vera nytsamlegt verkfæri í daglegu starfi enskukennarans. Kennarar eru eindregið hvattir til að kynna sér innihald þeirra og uppbyggingu vel fyrir notkun Yes we can efnisins og hafa þær við höndina í undirbúningi, kennslu og úrvinnslu. Þannig fá bæði kennarar og nemendur mest út úr námsefninu í heild sinni.
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=