Víkingaöld - Árin 800-1050

– 48 – Munnleg geymd og skrifaðar reglur Öld eftir öld höfðu nánast öll samskipti manna farið fram munnlega. Móðurmálið bar lífsreglur og menningu á milli kynslóða, oft í sögum, ljóðum og söng. Heimilisfólk sá um uppeldi og fræðslu og mótaði sam- félag og menningu. Á sumum heimilum var jafnvel fjölmenning . Þar voru erlendir þrælar. Þótt þeir væru réttlausir hafa þeir haft áhrif. Þeir sungu og töluðu á sínu máli og þegar þeir gættu barna hafa þeir kennt þeim sín lífsviðhorf og siði. Reglur sem aðeins eru til í munnlegri geymd mótast eftir aðstæðum, stund og stað. Reglur kónga og kirkju voru ákveðnar af fáum, voldugum körlum í fjarlægum löndum. Þær voru skrifaðar í bækur, ósveigjanlegar og tóku lítið mið af aðstæðum á hverjum stað. Arfur víkingaaldar Þótt víkingaöld hafi liðið undir lok skömmu eftir árið 1000 sjáum við víða áhrif hennar. Þekkirðu til dæmis fólk sem heitir Þór, Freyja, Baldur, Ása eða Sigrún? Manstu eftir fleiri nöfnum en þessum sem gætu verið frá víkingaöld? Hvað með örnefni eins og Þórsmörk? Þekkirðu fleiri slík? Berðu saman algeng orð til dæmis í íslensku, dönsku og ensku. Finnurðu orð sem eru lík? Þá eru þau líklega frá þeim tíma þegar sama tungumál var talað í miklum hluta Norður-Evrópu þar sem nú eru mörg lönd og nokkur tungumál töluð. Skoðaðu líka gömlu ljóðin. Völuspá, sem ævaforn völva á að hafa flutt, og Hávamál sem Óðinn á að hafa fært mönnum. Skilur þú þau? Ertu sammála því sem þar er haldið fram. Heldurðu að ljóðin hafi enn áhrif?

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=