Víkingaöld - Árin 800-1050

– 26 – Landnám Norrænir menn lögðu undir sig Orkneyjar og Hjaltlandseyjar. Þaðan fóru þeir ekki aðeins í víking suður um lönd heldur sigldu norður á bóginn og hófu landnám í Færeyjum og á Íslandi á 9. öld. Um 985 fór Eiríkur rauði frá Íslandi til Grænlands og margt fólk með honum. Í Íslendingasögum er sagt að um árið 1000 hafi sonur Eiríks, Leifur heppni, og föruneyti hans haldið áfram vestur og fundið Helluland, Markland og Vínland. Á austurströnd Kanada hafa fundist leifar norrænnar byggðar frá þessum tíma. Þar bjuggu í um þrjú ár Guðríður Þorbjarnardóttir og Þorfinnur karlsefni með sínu föruneyti. Þau eignuðust þar soninn Snorra áður en þau fóru aftur til Grænlands og settust loks að á Íslandi. Guðríður er talin hafa verið víðförlasta kona heims á þessum tíma. Hún sigldi oft yfir úthöf og gekk um Evrópu, alla leið til Rómar. Heimalönd norrænna manna voru í Noregi, Svíþjóð og Danmörku. Þegar líða tók á víkingaöld voru samfélög þeirra í löndum sem nú eru í þrem heimsálfum, Ameríku, Evrópu og Asíu. Þar ríkti menning þeirra, tungumál, trú, reglur, siðir og vinnubrögð. Á öllu þessu svæði hafa fundist fornleifar frá þeim og minjar og víða eru orð og nöfn af norrænum uppruna. Landnám fólks á Íslandi og Færeyjum var komið til að vera. Frá Ameríku hrökkluðust landnemar eftir örfá ár undan árásum innfæddra. Á Grænlandi var norræn byggð í um fimm aldir. Ekki er vitað hver urðu örlög hennar. Nor- ræn samfélög á Bretlandseyjum, í Frakklandi og Rússlandi tóku smátt og smátt upp tungumál og menningu þess fólks sem fyrir var og hurfu í fjöldann. Eftirlíking af bæ frá víkingaöld er í L’Anse aux Meadows á Nýfundnalandi.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=