Víkingaöld - Árin 800-1050

– 14 – Víkingaöld Víkingar T ímabilið frá því um 800 til um 1050 er kallað víkingaöld. Sem betur fer var ekki allt fólk víkingar heldur aðeins nokkrir nor- rænir karlar. Flestir víkingar voru ungir bændur eða bændasynir sem héldu að heiman til að skoða veröldina og öðlast frægð og ríkidæmi. Víkingar létu sér ekki nægja að selja og kaupa vörur með friði. Þeir stunduðu sjórán og gerðu strandhögg á landi, stálu, eyðilögðu hús og bæi og börðust við heimamenn en drápu líka óvopnað fólk eða tóku það með sér og gerðu að þrælum . Síðan sneru þeir heim með ránsfeng sinn og héldu áfram bústörfum. Kristni breiddist út í Evrópu og víða voru stofnuð klaustur . Þar bjó fólk sem kunni að lesa og skrifa. Víkingar sóttu í að ræna klaustur. Þau voru oft á afskekktum stöðum og þar var mikill auður. Sum verðmæti klaustra mátu víkingar einskis. Þeir brenndu bókasöfn og eyðilögðu listmuni og helgitákn . Víkingar voru helstu óvinir klaustranna og skiljanlegt að munkar skrifuðu illa um þá. Margar sagnir af víkingum, sem nú eru þekktar, eru upprunnar í klaustrum. Víkingarnir fóru víða og allir óttuðust þá. Þeir voru áberandi og áhrifa- miklir. Konungar efldu heri sína til að etja kappi við þá. Reist voru virki umhverfis borgir til að verjast þeim. Sum virkin þróuðust síðar í kastala. Þótt víkingaöld liði og aðrir tímar tækju við gætti áhrifa hennar lengi og gerir enn.

RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=