Verum virk
Meginatriði – yfirlit Mál- og tjáningarfrelsi er ein af undirstöðum lýðræðis og mannréttinda. Flestir þurfa einhvern tímann að halda ræðu, sem getur verið erfitt í fyrsta sinn, en allir geta öðlast færni í ræðumennsku með æfingu. Undirstaða góðrar ræðu er þekking á umfjöllunarefninu, rétt raddbeiting og eðlileg framkoma. Ræður má flokka í fjórar tegundir: Málflutningsræður, fræðsluræður/ fyrirlestra, ávörp og tækifærisræður. Góður undirbúningur er lykillinn að áhrifaríkri ræðu. Í því felst að kynna sér efnið vel, skrifa ræðuna og æfa flutning hennar. Ræða skiptist í þrjá hluta: Inngang/opnun, meginmál og lokaorð. Hver þáttur skiptir miklu máli. Inngangurinn vekur áhuga og athygli áheyrenda, í meginmáli gerum við ítarlega grein fyrir umræðuefninu og færum rök fyrir máli okkar en lokaorðin setja punktinn yfir i-ið og áheyrendur muna þau best. Hægt er að velja ýmsar leiðir til að flytja ræðu: Orðrétt af blaði, út frá minnispunktum, eftir minni eða spinna blaðlaust á staðnum. Hvaða leið sem er valin skiptir máli að ræða sé flutt af einlægni og eldmóði. Svipbrigði, hreyfingar og þagnir geta ljáð orðum okkar aukna merkingu og aukið áhrif ræðunnar. Allir finna einhvern tímann fyrir sviðsskrekk og kvíða, jafnvel færustu ræðumenn. Svo lengi sem kvíðinn er innan hæfilegra marka er hann af hinu góða því hann fær okkur til að leggja okkur betur fram og gerir flutninginn kröftugri. Til eru ýmsar leiðir til að takast á við streitu sem fylgir því að koma fram. 41 Verkefni með fimmta kafla 1.Flutningur ræðu Hlustið á eina ræðu að eigin vali (t.d. í sjónvarpsútsendingu frá Alþingi eða af vefsíðunni ted.com) . Bendið á þrennt sem var vel gert í ræðunni og læra má af og þrennt sem hefði mátt betur fara. 2. Undirbúningur ræðu Semjið 2–3 mínútna ræðu um eitthvert efni sem þið hafið brennandi áhuga fyrir eða er ykkur hjartfólgið (það getur t.d. verið um eitthvert þjóðmál, áhugamál eða lífsgildi ykkar). Æfið ykkur svo að flytja hana, gjarnan með félaga sem getur gefið góðar ábendingar.
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=