Vertu þinn eigin yfirmaður - Kennsluleiðbeiningar
11 VERTU ÞINN EIGIN YFIRMAÐUR - Kennsluleiðbeiningar Á þessari opnu getur nemendinn íhugað og aukið skilning sinn á eigin getu og hvernig hún nýtist við að þróa viðskiptahugmyndina. Nemdendur verða að öðlast skilning á því að við GETUM EKKI gert allt sjálf og ÞURFUM hjálp frá góðu teymi til að geta byggt upp fyrirtæki. Jafnvel í einyrkjafyrirtæki er þörf fyrir aðstoð, annaðhvort með því að vinna saman eða með því að kaupa vinnu eða fá hjálp frá vinum og ættingjum. Með þessari æfingu getur kennarinn sýnt nemendum að til eru margar mismunandi tegundir hæfileika og færni, og allar skipta þær máli. Nemendur eru vanir því að vera metnir og að meta sig sjálfir í hefðbundnum námsgreinum og því þarf kennarinn að hjálpa þeim að meta sjálfa sig í nýju ljósi. Það er mikilvægt að útskýra fyrir nemendum að hæfileikar geta legið á mörgum mismunandi sviðum og eru ekki alltaf eitthvað sem við áttum okkur á sjálf. Kannski sjáum við alls ekki sjálf hæfileika okkar á einhverju sviði sem liggur vel fyrir okkur og höldum þess vegna að þetta sé eitthvað sem allir geta. Hér gefst nemendum tækifæri til að sjá nýjar hliðar á sjálfum sér og koma auga á að það getur talist hæfileiki að eiga auðvelt með að tala við annað fólk, að geta gert við hluti, að koma skipulagi á hluti, að fá hugmyndir, að skilja samfélagsmiðla o.s.frv. Þegar hóparnir eru myndaðir er mikilvægt að kennarinn hafi orð á því að í hópvinnu hjálpast allir að. Hópurinn er valinn þannig að til samans búa meðlimirnir yfir eins mismunandi eiginleikum og mögulegt er og þess vegna verða þeir sérfræðingar hver á sínu sviði sem hjálpa hver öðrum. Þetta verður með öðrum orðum jafningjafræðsla og skipst verður á þekkingu. Ferlið: 1. Láttu nemendur lesa textann sem á við opnuna og segja sína skoðun á því í hverju þeir telja sig vera góða með því að skoða kassana fjóra, „sagnamenn“, „skaparar“, „rökfræðingar“ og „brúarsmiðir“. 2. Láttu þá skrifa sjálfsmat á eigin getu á vinnublaðið. 3. Skiptu bekknum því næst niður í minni hópa eða láttu allan bekkinn koma með tillögu um hvaða verkefni þeir sæju fyrir sér að félagar þeirra myndu leysa. Þú getur einnig komið með góðar tillögur. 4. (Einstaklingsvinna) – Láttu hvern nemanda íhuga hvaða færni þarf að hafa til að geta hrint hugmyndinni í framkvæmd og kortleggja þessa færni. 5. (Hópvinna) – Veldu í hópana til að byrja að vinna að þeim hugmyndum sem valdar voru. (Hver og einn getur haft hæfni á mörgum sviðum og hægt er að fá lánaða sérfræðinga milli hópa ef margir eru með sömu hæfni.) Í HVERJU ERTU GÓÐ(UR)?
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=