Verklegar æfingar í náttúrufræði
4 Formáli Formáli Í þessu hefti er safn verklegra æfinga í eðlisfræði sem ætlað er fyrir miðstig grunnskóla. Verkefnin er hægt að prenta út eða afrita og má nýta með hvaða grunnnámsefni sem er. Í þessari útgáfu hafa inngangskaflar verið endurskoðaðir með hliðsjón af aðalnámskrá grunnskóla (almennur hluti 2011 og greinasvið 2013) og texta breytt á stöku stað. Auk þess hefur nokkrum fylgiskjölum verið bætt við í þessa útgáfu. Höfundar efnisins eru þrír, Kristjana Skúladóttir og María Sophusdóttir, grunnskólakenn- arar með áratuga kennslureynslu í náttúrufræði á miðstigi grunnskóla og Ari Ólafsson, eðlisfræðingur og kennari við Háskóla Íslands. Heftinu er skipt í tvo hluta. Í fyrri hlutanum eru upplýsingar fyrir kennara um almenn atriði sem tengjast skipulagi og notkun verklegra æfinga í almennum bekkjardeildum. Einnig er kafli um nýjar áherslur í aðalnámskrá grunnskóla 2011 og 2013, sem snerta framkvæmd kennslu og námsmats. Enn fremur eru fræðilegir kaflar um eðlisfræðileg atriði sem geta nýst kennurum til að styrkja fræðilegan grunn sinn. Í seinni hlutanum eru viðfangsefni fyrir nemendur. Þar er hver tilraun sett upp á ákveðinn hátt með það í huga að nemendur geti framkvæmt þær nokkuð sjálfstætt. Með hverri tilraun er jafnframt sérstök blaðsíða ætluð kennurum þar sem tilgreind eru markmið með verkefninu, ábendingar um framkvæmd, út- skýringar og niðurstöður tilraunarinnar. Við val á tilraunum var m.a. haft í huga að auðvelt væri að framkvæma þær í almennri kennslustofu. Þessi hluti efnisins er byggður á áratuga reynslu höfunda í náttúrufræðikennslu á miðstigi. Sú reynsla hefur sýnt að í verklegri vinnu eru nemendur yfirleitt áhugasamir. Hugtök sem tengjast viðfangsefnunum verða ljósari og auðveldari í notkun og öll vinnubrögð agaðri. Við framsetningu æfinganna er lögð áhersla á sjálfstæð og skipulögð vinnubrögð nemenda auk þess sem öryggi er alltaf haft í huga. Aldrei er of oft brýnt fyrir nemendum að fara varlega, t.d. með eld og heitt vatn og í sumum tilvikum getur verið betra að kennari aðstoði. Sjálfsagt kannast margir við æfingar sem eru keimlíkar þeim sem hér eru en þessar einföldu tilraunir sem gefa nemendum færi á að skoða afmarkaða efnisþætti og draga ályktanir af athugunum sínum má finna í fjölmörgum útfærslum víða um heim. Aftast í heftinu eru fylgiskjöl. Þar eru dæmi um hvernig kennarar geta skipulagt vinnuna og kynnt viðfangsefni fyrir nemendum. Einnig eru þar dæmi um úrlausnir nemenda og námsmat. Reykjavík, mars 2019 María Sophusdóttir
Made with FlippingBook
RkJQdWJsaXNoZXIy MjIxNzc=